Magnamenn fengu Þrótt Reykjavík í heimsókn í algjörum botnbaráttuslag í Lengjudeildinni í fótbolta á Grenivík í dag.
Tveimur stigum munaði á liðunum þegar kom að leiknum í dag og vermdu þau tvö neðstu sæti deildarinnar.
Eins og við mátti búast var jafnræði með liðunum en gestirnir náðu forystunni á 66.mínútu þegar Oliver Heiðarsson skoraði eftir mikinn sprett upp hægri kantinn.
Magnamenn voru fljótir að bregðast við og jöfnuðu með marki Kairo Edwards-John á 73.mínútu.
Bæði lið fengu góð færi til að tryggja sér sigurinn á lokamínútunum en allt kom fyrir ekki og þurftu liðin að sættast á jafnan hlut.
Magnamenn eru því enn á botni deildarinnar, með 9 stig en Þróttarar lyftu sér upp úr fallsæti með jafnteflinu og hafa 12 stig í 10.sæti.