Íslenski boltinn

Spilað eins og kóngur síðan hann var skammaður eins og smákrakki

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmann Þórisson hefur leikið frábærlega síðan hann var tekinn á teppið eftir rauða spjaldið sem hann fékk gegn Fjölni.
Guðmann Þórisson hefur leikið frábærlega síðan hann var tekinn á teppið eftir rauða spjaldið sem hann fékk gegn Fjölni. vísir/vilhelm

Guðmann Þórisson var eins og kóngur í ríki sínu í vörn FH í sigrinum á Breiðabliki, 3-1, í Pepsi Max-deild karla á sunnudaginn.

Líkt og fleiri leikmenn FH hefur Guðmann leikið vel eftir að Logi Ólafsson og Eiður Smári Guðjohnsen tóku við þjálfun liðsins.

Guðmann fékk reyndar rautt spjald í fyrsta leiknum undir stjórn Loga og Eiðs Smára, 0-3 sigri á Fjölni, en hefur haldið sig á mottunni eftir það.

„Hann fékk skammt af gagnrýni um daginn þegar hann lét reka sig út af eins og smákrakki uppi í Grafarvogi. En síðan þá, og ég veit að hann var skammaður eins og smákrakki í kjölfarið, hefur hann litið miklu betur út,“ sagði Guðmundur Benediktsson í Pepsi Max stúkunni í gær.

„Hann var með hundrað prósent einbeitingu í þessum leik, bikarleiknum gegn Stjörnunni og í síðustu leikjum sem hann hefur spilað hefur hann verið frábær. Það eru ekki margir miðverðir á Íslandi betri en hann þegar hann er upp á sitt besta,“ sagði Davíð Þór Viðarsson.

Hjörvar Hafliðason er alveg með það á hreinu af hverju Guðmann hefur spilað svona vel að undanförnu.

„Annars vegar fílar þjálfarinn hann og gefur honum traustið,“ sagði Hjörvar. „Svo er hann á samningsári. Hann er laus eftir árið. Ég gæti verið í allt kvöld að tala um leikmenn sem eiga gott ár þegar þeir eru að vera samningslausir. Ég held að Guðmann sé gott dæmi um það. Hann er að ýta FH-ingum í að semja við sig.“

Klippa: Pepsi Max stúkan - Umræða um Guðmann



Fleiri fréttir

Sjá meira


×