Íslenski boltinn

Hjörvar: Endalaust af mistökum en hann er fullorðinn maður en ekki einhver krakki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anton Ari Einarsson varð tvisvar sinnum Íslandsmeistari og tvisvar sinnum bikarmeistari með Val.
Anton Ari Einarsson varð tvisvar sinnum Íslandsmeistari og tvisvar sinnum bikarmeistari með Val. Vísir/Bára

Anton Ari Einarsson tók við af Gunnleifi Gunnleifssyni í marki Breiðabliks fyrir þetta tímabil og þetta hefur verið erfitt sumar fyrir strákinn.

Hjörvar Hafliðason vildi vekja athygli á því í Pepsi Max Stúkunni að Anton Ari Einarsson er enginn nýliði í boltanum heldur er hann orðinn markvörður með mikla reynslu.

Hjörvar segir líka að Anton Ari hafi átt skilið þá gagnrýni sem hann hefur fengið í sumar.

„Þeir hafa gefið ofboðslegan fjölda af mörkum. Markmaðurinn hefur réttilega verið gagnrýndur fyrir sína frammistöðu. Hann er búinn að gera mjög mikið af mistökum,“ sagði Hjörvar Hafliðason um Anton Ara Einarsson.

„Margir í vörn Breiðabliksliðsins eru að spila verr og þeir er náttúrulega búnir að breyta vörninni sinni í þriggja manna vörn. Þetta eru endalaust af mistökum," sagði Hjörvar um leið og sýnd voru mörk sem Anton Ari hefur gefið í sumar.

Davíð Þór Viðarsson hneykslaðist á því af hverju varnarmenn Blika væri að setja markvörðinn sinn í svona erfiða stöðu en taldi það líklega vera komið frá Óskari Hrafn Þorvaldssyni þjálfara liðsins.

„Það er ekki mjög auðvelt fyrir Anton að það sé mjög oft ný varnarlína. Það hafa verið töluverðar breytingar á línunni í allt sumar," sagði Hjörvar en bendir á eitt. Anton Ari er 26 ára gamall og á að baki 90 leiki í Pepsi Max deildinni.

„Hann hefur fengið svona umtal um sig eins og að þetta sé einhver nýliði. Það er góð ábending. Hann hefur unnið fleiri titla en Gulli. Þetta er enginn nýliði í markinu heldur reyndur, góður markmaður. Það er ennþá verið að tala um hann eins og hann sé einhver krakki en þetta er bara fullorðinn maður í markinu," sagði Hjörvar.

Hér fyrir neðan má sjá alla umfjöllunina um Anton Ara í Pepsi Max Stúkunni í gær.

Klippa: Pepsi Max Stúkan: Umræða um Anton Ara í marki Breiðabliks



Fleiri fréttir

Sjá meira


×