Skoðun

Breiðum birkið út!

Pétur Halldórsson skrifar

Í dag er dagur íslenskrar náttúru. Á þeim degi er upplagt að efna til sameiginlegs verkefnis með þjóðinni um útbreiðslu á einni öflugustu frumherjaplöntu sem þrífst á landinu.

Planta þessi er birki, ilmbjörk, og heitir á latínu Betula pubescens. Við landnám var að minnsta kosti fjórðungur landsins vaxinn birkiskóglendi. Nú er þekja birkis einungis hálft annað prósent. Aðeins hálft prósent af þessu birkiskóglendi telst vera skógur út frá alþjóðlegri skilgreiningu á skógi, sem segir að skógur sé svæði sem er að minnsta kosti hálfur hektari á stærð vaxið trjám sem ná 5 metra hæð eða meira. Slíkur skógur gæti vaxið mun víðar en nú er.

Pétur Halldórsson

Meginkostur birkis er mikil fræframleiðsla sem þýðir að tegundin er mjög dugleg að sá sér út ef aðstæður eru hagstæðar fyrir fræið að spíra. Birki er frumherjategund. Slíkar tegundir eru á undan öðrum að nema land og duga því vel til að koma upp heilbrigðri gróðurhulu sem þolað getur ýmis áföll. Á Íslandi þarf gróðurlendi að þola alls kyns áraun af völdum náttúruaflanna, hvort sem það er veður, öskugos eða annað. Skógi vaxið land stenst slíka áraun mun betur en skóglaust.

Í dag er biðlað til þjóðarinnar að hjálpa birkinu að breiðast út á ný um landið. Nælið ykkur í söfnunaröskju í Bónus eða finnið sjálf bréfpoka, taupoka eða grisju til að safna í, finnið falleg tré með miklu fræi, skráið hvar tínt var og sáið á beitarfriðuðum svæðum þar sem leyfilegt er. Ef fólki hentar ekki að sá fræinu á eigin spýtur má líka skila því í tunnur í Bónus-verslunum eða koma því til Skógræktarinnar eða Landgræðslunnar. Meira á vef verkefnisins, birkiskogur.is.

Höfundur situr í undirbúningshópi fræsöfnunarverkefnisins.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×