Tónlistarkonan Cardi B hefur sótt um skilnað frá eiginmanni sínum rapparanum Offset. Skilnaðarmál þeirra Belcalis Marlenis Almanzar, þekkt sem Cardi B, og Kiari Kendrell Cephus, eða Offset, hefur verið skráð hjá Fulton sýslu í Georgíu í Bandaríkjunum. Sótt var um skilnaðinn í dag, 15. september, og mun parið mæta til málflutnings þann 4. nóvember næstkomandi.
Cardi B og Offset giftu sig á laun í september 2017. Þau eiga saman eina dóttur, hana Kulture Kiari Cephus sem fæddist í júlí 2018.
Parið hefur áður verið við það að skilja, en í desember 2018 tilkynnti Cardi B að samband þeirra Offset væri búið. „Ég mun ávallt elska þennan mann vegna þess að hann er faðir dóttur minnar,“ sagði Cardi á sínum tíma.
Stuttu síðar mætti Offset á tónleika hennar á Rolling Loud tónlistarhátíðinni, fór upp á svið og grátbað hana að byrja aftur með sér. „Taktu mig aftur, Cardi,“ bað tónlistarmaðurinn sem hélt á blómvendi. Parið sættist og þegar Cardi hlaut Grammy verðlaun fyrir bestu rapp plötuna 2019 fóru þau saman upp á sviðið til að taka við verðlaununum.