Yfirlögregluþjónn segir það áhyggjuefni hversu margir hafi greinst með kórónuveiruna innanlands í dag, og enn fremur að aðeins einn hafi verið í sóttkví við greiningu. Umfangsmikil skimun á vinnustöðum sem tengjast hinum nýsmituðu er í undirbúningi. Ekki er þó gert ráð fyrir hertari veiruaðgerðum innanlands.
Auk innanlandssmitanna þrettán greindust tveir með virk smit í seinni landamæraskimun í gær. Sjötíu og fimm eru nú í einangrun með kórónuveiruna á landinu og 437 í sóttkví. Einn liggur á sjúkrahúsi en er ekki á gjörgæslu. Fleiri hafa ekki greinst með veiruna innanlands á einum sólarhring síðan 6. ágúst, þegar sextán greindust.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir stöðuna áhyggjuefni, einkum í ljósi þess hversu fáir voru í sóttkví við greiningu í gær. Inntur eftir því hvort veiruaðgerðir stjórnvalda innanlands séu ekki að virka sem skyldi segir Víðir að erfitt sé að segja til um það.
„Við erum enn þá í smitrakningunni á þessu. Við erum að reyna að átta okkur á því hvar fólkið hefur smitast. Það eru svo fáir í sóttkví og í einhverjum tilvikum hefur fólk ekki getað sagt nákvæmlega þá möguleika sem upp hafa komið varðandi það hvaðan það hefur smitast. Það er líka áhyggjuefni í þessu,“ segir Víðir.
„En þessi barátta snýst að miklu leyti um okkar eigin smitvarnir. Þær vigta miklu meira en íþyngjandi aðgerðir innanlands.“
Enn er ekki skýrt hvernig margir hinna nýsmituðu fengu veiruna. Víðir segir að í flestum tilfellum hafi ekki fundist sterkar tengingar milli einstaklinganna. Í nokkrum tilfellum sé um vinnufélaga að ræða og í öðrum tengist fólk fjölskylduböndum.
Megum við eiga von á hertum aðgerðum í ljósi stöðunnar núna?
„Ég á ekki von á því að núgildandi aðgerðum verði breytt. Það sem við erum aftur á móti að gera í samvinnu margra aðila er að við ætlum að fara í talsvert umfangsmiklar skimanir. Íslensk erfðagreining, Landspítalinn og Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu og fleiri aðilar eru að koma á fullt í að undirbúa það að skima vinnustaði sem tengjast þessum einstaklingum og fleiri staði,“ segir Víðir.
„Við leggjum bara áherslu á það sama. Ef fólk er með einhver einkenni, ekki fara í vinnuna. Ef það er með einkenni að hafa samband við heilsugæsluna og fá sýnatöku. Og síðan þessar okkar eigin ráðstafanir, handþvotturinn, handsprittið og að halda fjarlægð við fólk.“