Innlent

Viður­kenna að upp­sagnir flug­freyja hafi brotið í bága við sam­skipta­reglur

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Undir yfirlýsinguna rita Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Berglind Hafsteinsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, og Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands.
Undir yfirlýsinguna rita Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Berglind Hafsteinsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, og Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands. Vísir/Vilhelm/Samsett

Icelandair Group, Samtök atvinnulífsins, Flugfreyjufélag Íslands og ASÍ harma það að öllum starfandi flugfreyjum Icelandair hafi verið sagt upp hjá félaginu í júlí. Uppsagnirnar hafi ekki verið í „samræmi við þær góðu samskiptareglur sem aðilar vinnumarkaðarins vilja viðhafa“. Þá sé deilum félaganna vegna málsins hér með lokið. Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu Icelandair, SA, FFÍ og ASÍ í dag.

Í yfirlýsingunni kemur fram að öll félögin séu sammála um að lögmæt og rétt viðbrögð atvinnurekenda og stéttarfélaga í erfiðum og langdregnum kjaradeilum eigi að fara eftir þeim leikreglum og lögum sem gilda í samskiptum aðila vinnumarkaðar.

Uppsagnirnar sem Icelandair greip til í júlí með stuðningi SA, þegar félagið taldi vonlaust að ná árangri í viðræðum við Flugfreyjufélag Íslands, hafi ekki verið í samræmi við þessar reglur. Icelandair telji nauðsynlegt fyrir framtíð félagsins að virða stéttarfélög og sjálfstæðan samningsrétt starfsfólks síns.

Icelandair, SA, FFÍ og ASÍ muni leggja sig fram um að halda góðu samstarfi og hyggist leggja sitt af mörkum til þess að endurvinna og efla traust sín á milli.

Hér með séu félögin sammála um að öllum deilum milli þeirra, þ.e. um þá atburði sem áttu sér stað í samskiptum þeirra daginn sem flugfreyjunum var sagt upp, sé lokið og að enginn hlutaðeigandi muni gera kröfur á annan vegna þeirra.

Undir yfirlýsinguna rita Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Berglind Hafsteinsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, og Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands.

Icelandair sleit kjaraviðræðum við FFÍ og sagði upp öllum flugfreyjum félagsins þann 17. Júlí síðastliðinn. Alþýðusambandið, FFÍ og forkólfar í verkalýðshreyfingunni fordæmdu ákvörðunina í kjölfarið. Uppsagnirnar voru að endingu dregnar til baka og nýr kjarasamningur FFÍ og Icelandair samþykktur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×