Innlent

Nokkrar konur sem fengu ranga niður­stöðu úr leg­háls­skimun þurfa að fara í keilu­skurð

Sunna Kristín Hilmarsdóttir og Sunna Sæmundsdóttir skrifa
Ágúst Ingi Ágústsson er yfirlæknir leitarsviðs Krabbameinsfélagsins.
Ágúst Ingi Ágústsson er yfirlæknir leitarsviðs Krabbameinsfélagsins. Vísir/Arnar

Nokkrar konur sem fengu ranga niðurstöðu í leghálsskimun hjá Krabbameinsfélaginu reyndust vera með það alvarlegar frumubreytingar að þær þurfa að fara í keiluskurð. Krabbameinsfélagið ráðleggur viðkomandi konum að gangast undir keiluskurð.

Krabbameinsfélagið hefur lokið við endurskoðun á 3.300 sýnum af þeim rúmlega sex þúsund sem þarf að endurskoða eftir að mistök uppgötvuðust í sumar.

Ágúst Ingi Ágústsson, sviðsstjóri leitarsviðs Krabbameinsfélagsins, segir að konurnar sem reyndust hafa miklar frumubreytingar séu ekki fleiri en tíu. Hann vill hins vegar ekki upplýsa um nákvæman fjölda þeirra.

„Þetta eru allt saman frumubreytingar, það er ekki krabbamein, en það eru einstaka sem eru með slæmar frumubreytingar og í þeim tilfellum ráðleggjum við keiluskurð,“ segir Ágúst í samtali við fréttastofu.

Aðspurður hvort að þessi mistök breyti einhverju fyrir þessar konur og hvort þær séu í verri stöðu nú heldur en ef þetta hefði komið í ljós árið 2018 segir Ágúst:

„Það sem við getum sagt er að sem betur fer þá hafa enn sem komið er ekki greinst nein krabbameinstilfelli þannig að ég myndi segja að það hefði ekki breytt miklu. Við erum að ná að bregðast við í tæka tíð því sem þarf að bregðast við.“

En hefði verið betra að uppgötva þetta á sínum tíma?

„Okkur hefði þótt það þægilegra en þeim er ekki hætta búin fyrst okkur hefur tekist að greina þær í tæka tíð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×