Erlent

Eitur sent til Donald Trump

Sylvía Hall skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti. 
Donald Trump Bandaríkjaforseti.  AP/Andrew Harnik

Umslag sem innihélt efnið rísín var sent til Donald Trump Bandaríkjaforseta. Sendingin uppgötvaðist fyrr í vikunni og var hún tekin úr umferð áður en hún var send til Hvíta hússins.

Efnið var í umslagi en hreint rísín er stórhættulegt. Skammtur á stærð við haus á títuprjóni dugir til þess að drepa fullorðinn einstakling en efnið fæst úr aldinkjörnum kristpálma. Innbyrði einstaklingur efnið getur það leitt til uppkasta, innvortis blæðinga og að endingu valdið lífshættulegum skemmdum á líffærum.

Alríkislögregla Bandaríkjanna og leyniþjónustan rannsaka nú hvaðan sendingin kom og hvort aðrar sambærilegar hafa verið sendar. Ekki er talið að almenningi stafi hætta af mögulegum sendingum sem innihalda efnið að því er fram kemur á vef CNN.

New York Times hefur eftir heimildarmanni sínum að rannsakendur telja sendinguna hafa komið frá Kanada.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×