Um helgina voru tveir starfsmenn á miðstigi í Fossvogsskóla skikkaðir í sóttkví eftir að náinn ættingi greindist með kórónuveirusmit. Annar starfsmaðurinn hefur fengið þær niðurstöður úr fyrri skimun að hann sé ekki smitaður.
Þetta kemur fram í tölvupósti sem Ingibjörg Ýr Pálmadóttir, skólastjóri Fossvogsskóla, sendi á foreldra fyrr í dag. Hún segir starfsmanninn, sem nú þegar hefur fengið niðurstöður úr einni skimun, vera í úrvinnslusóttkví fram á föstudag en þá fer hann aftur í skimun. Verði niðurstaðan sú að hann sé ekki smitaður mun hann mæta aftur til vinnu á mánudag.
Hinn starfsmaðurinn sem um ræðir fékk upplýsingar í gær að náinn ættingi væri smitaður af veirunni. Hann er því í sóttkví næstu tvær vikurnar.
„Fossvogsskóli mun reyna eins og kostur er að halda uppi hefðbundnu skólastarfi hjá öllum nemendum. Þó kann að verða röskun á því hjá 6. bekk vegna samræmdra prófa sem eru hjá 7. bekk á fimmtudag og föstudag í þessari viku.“