Innlent

Fram­halds­skólar fá um 25 þúsund grímur

Sylvía Hall skrifar
Landspítalinn mun annast útsendingu á grímunum.
Landspítalinn mun annast útsendingu á grímunum. Vísir/Getty

Mennta- og menningamálaráðuneytið hefur gefið út leiðbeiningar er varða grímunotkun í námi á framhalds- og háskólastigi. Nemendur og starfsfólk þurfa nú að nota grímur í skólabyggingum og í öllu skólastarfi.

Ráðuneytið hefur í samstarfi við heilbrigðisráðuneytið tryggt framhaldsskólum aðgang að 20 til 25 þúsund grímum sem Landspítalinn mun annast útsendingu á í fyrramálið. Þannig verði tryggt að staðnám verði að mestu leyti óbreytt.

Háskólum og framhaldsskólum er gert að fylgja gildandi sóttvarnareglum hverju sinni með öryggi og velferð nemenda og starfsfólks að leiðarljósi. Þá eru þeir hvattir til þess að fylgjast með líðan nemenda sinna og hafa yfirsýn yfir þá hópa sem þurfa sérstakan stuðning.

Þá er áréttað að grímunotkun komi ekki í stað nándarreglu um minnst eins metra fjarlægð. Skólarnir eigi einnig að takmarka gestagang í skólum og mælst er til þess að viðburðir verði ekki haldnir á vettvangi skólanna.

Hvað varðar heimavistir er er nemendum skylt að bera grímur í sameiginlegum rýmum. Þau sem deila herbergi flokkast þó sem tengdir einstaklingar og þurfa því ekki að nota grímur í umgengni við hvort annað.

Hér má nálgast leiðbeiningar fyrir háskóla annars vegar og framhaldsskóla hins vegar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×