Enn einn lekinn innan úr fjármálageira heimsins skekur nú stærstu banka veraldar en FinCen lekinn eins og hann er kallaður, sýnir fram á að bankar á borð við HSBC í Bretlandi leyfðu svikahröppum og glæpamönnum að færa milljarða Bandaríkjadala á milli banka, eftir að ljóst var orðið að um illa fengið fé var að ræða.
Skjölin sem um ræðir eru tilkynningar til bandaríska fjármálaeftirlitsins frá bönkunum sjálfum sem lekið var til Buzzfeed fréttaveitunnar sem deildi þeim síðan með Alþjóðasamtökum rannsóknarblaðamanna, sem meðal annars komu að vinnslunni á Panamaskjölunum á sínum tíma.
Nýju skjölin eru tilkynningar frá bönkunum þar sem þeir láta yfirvöld vita af grunsemdum um að fé sé illa fengið. Bankarnir eiga þó ekki að láta staðar numið þar, heldur eiga þeir lögum samkvæmt einnig að stöðva viðskipti með umræddar fjárhæðir.
Skjölin sýna hins vegar að oft hafi verið látið undir höfuð leggjast að gera nokkuð meira í málinu en að láta yfirvöld vita.
Fergus Shiel, blaðamaður hjá samtökunum, segir í samtali við BBC að skjölin sýni glöggt hve mikið bankar viti um uppruna svartra peninga sem þeir höndli með. Hann segir að regluverkið sem ætlað er að stöðva peningaþvætti sé ónýtt.