Bandaríska geimvísindastofnunin NASA tilkynnti í dag að fyrsta mannaða geimferðin í geimferju SpaceX verði farin í næsta mánuði. Það verður fyrsta mannaða geimferðin frá Bandaríkjunum frá því að geimskutluáætlunin leið undir lok fyrir tæpum tíu árum.
Dragon-geimferja SpaceX á að hafa sig á loft frá Canaveral-höfða á Flórída 27. maí. Henni verður skotið á loft með Falcon 9-eldflaug sama fyrirtækis og verður stefnan tekin á Alþjóðlegu geimstöðina á braut um jörðu.
Eftir að geimskutluáætluninni lauk árið 2011 hafa Bandaríkjamenn þurft að reiða sig á Soyuz-geimferjur Rússa til að koma geimförum til og frá geimstöðinni.
NASA samdi við SpaceX og Boeing um að smíða geimferjur sem gætu flutt menn. Ferðin í næsta mánuði verður fyrsta mannaða geimferð SpaceX. Um borð verða tveir reyndir geimfarar, þeir Bob Behnken og Doug Hurley. Sá síðarnefndi flaug með síðustu bandarísku geimskutlunni árið 2011.
LAUNCH UPDATE: Our first crewed @SpaceX mission with @AstroBehnken and @Astro_Doug is set for liftoff May 27 at 4:32pm ET from @NASAKennedy.@NASA_Astronauts will once again launch on American-made rockets from American soil. Get ready to #LaunchAmerica: https://t.co/kMRxVZ6KgE pic.twitter.com/DZ0HJcwcDB
— NASA (@NASA) April 17, 2020
Boeing hefur átt í erfiðleikum með Starliner-geimferju sína. Í tilraunaflugi hennar í desember tókst ferjunni ekki að tengjast Alþjóðalegu geimstöðinni. Til stendur að prófa ferjuna aftur án geimfara áður en haldið verður áfram með áform um mannaðar ferðir.
Sjá einnig: Boeing lenti geimfari sem hlekktist á
Ekki liggur fyrir hversu lengi þeir Behnken og Hurley verða um borð í geimstöðinni. Washington Post segir líklegt að dvöl þeirra verði framlengd frá því sem upphaflega var áætlað vegna tafa og vandræða við mannaðar ferðir SpaceX og Boeing.