Innlent

„Þegar sótt­varna­læknir lætur heyra í sér þá hlustum við“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Beðið eftir sýnatöku á Suðurlandsbraut í dag.
Beðið eftir sýnatöku á Suðurlandsbraut í dag. Vísir/Vilhelm

Alls voru 3.009 sýni fyrir kórónuveirunni tekin hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í dag. Aldrei hafa fleiri farið í sýnatöku á einum degi, samkvæmt upplýsingum frá almannavörnum. Verkefnastjóri sýnatöku segir að grettistaki hafi verið lyft í dag en býst við því að hægist um á morgun.

Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu sér um sýnatöku fyrir þá sem eru með einkenni Covid-19, auk seinni landamæraskimunar og skimunar í sóttkví. Agnar Darri Sverrisson verkefnastjóri sýnatöku hjá heilsugæslunni segir í samtali við Vísi að fyrra sýnatökumetið hafi verið rækilega slegið í dag.

„Við tókum 3.009 sýni í dag og erum að fara um 50 prósent upp. Það mesta sem við höfum tekið áður var 2.100,“ segir Agnar.

Hann segir að sýnatakan á Suðurlandsbraut 34 hafi gengið afar vel í dag. Um 20 starfsmenn voru á vakt á hverjum tíma frá átta í morgun til um átta í kvöld.

„Við náðum okkar markmiði. Okkar eina markmið var að allir sem þyrftu kæmust að og að menn þyrftu að bíða lítið. Þetta gekk rosalega smurt, nánast engar raðir. Þegar sóttvarnalæknir lætur heyra í sér þá hlustum við,“ segir Agnar.

Hann segir að það sé tilfinning þeirra sem sjá um sýnatökurnar að búið sé að ná utan um þær sýkingar sem rekja má til öldurhúsa í miðbænum og verið hafa áberandi síðustu daga. Það líti þannig út fyrir að ekki þurfi að vinna fram eftir við sýnatöku á morgun og næstu daga, líkt og gert var í dag.

„Heldur getum við komið öllum inn á þessum venjulega tíma, átta til fjögur. En það er eins og staðan er núna. Auðvitað kemur það í ljós á morgun, þetta gæti breyst,“ segir Agnar.


Tengdar fréttir

Forsætisráðherra ekki með veiruna

Frá þessu greinir Katrín á Facebook-síðu sinni nú á sjötta tímanum en hún fór í Covid-sýnatöku vegna veikinda í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×