Skoðun

Fákeppni á matvörumarkaði, samkeppni í sjávarútvegi

Svanur Guðmundsson skrifar

Út er komin skýrsla sem ber heitið: „Um markaði Brims og tengdra félaga, samþjöppun og virkni þeirra“. Skýrslan er unnin af fjármálafyrirtækinu Arev og kannar samkeppni með aflaheimildir [1] í sjávarútvegi og ber saman við annan atvinnurekstur hér á landi. Í skýrslunni er einnig skoðuð samkeppni á matvörumarkaði og í bankastarfssemi og almennt þá miklu samþjöppun sem er að finna í íslensku viðskiptalífi. Niðurstöðurnar sýna að samkeppni um aflaheimildir sjávarútvegsfyrirtækja er mikill, virkni aðfangamarkaða sömuleiðis og miklu mun meiri en í öðrum greinum atvinnulífsins hér á landi. Skýrsluhöfundar nota HHI mælikvarðann sem er notaður af Samkeppniseftirlitinu hérlendis, sem og erlendis, og reiknar út fjölbreytileika tiltekins safns, sambærilegt og gert er í vísindagreiningu með aðra stuðla innan vistfræði, eðlisfræði og stjórnmálafræði.

Í maí skrifaði ég grein um litlu sjávarútvegsfyrirtækin og risana á íslenskum markaði. Þá vakti ég athygli á því að þeir sem hvað mest áhrif hafa á afkomu heimilanna eru afskiptir í umræðunni og undraðist áhuga sumra fjölmiðla og stjórnmálaflokka á nokkrum sjávarútvegsfyrirtækjum. Mikið er talað um samþjöppun og fákeppni í sjávarútvegi en minna um þá starfsemi stórfyrirtækjanna sem varða heimilin í landinu mestu. Hvað veldur því? Þessi skýrsla sýnir svo óyggjandi sé að fákeppni ríkir á dagvörumarkaði en ekki í sjávarútvegi. Reiknuð voru samþjöppunarhlutföll fyrirtækja eftir sameiningar og þar kemur fram að samþjöppun er 8 sinnum meiri hjá Högum eftir samruna en er hjá Brim hf. Það er áhugavert að sjá að Samkeppniseftirlitið heimilaði samruna N1 og Festi, Haga og Olís í apríl á síðasta ári en hefur rannsakað samruna hjá Brim síðan í maí 2018 án niðurstöðu (?) . Er það eðlilegt? Vel að merkja, þá fara afurðir sjávarútvegsfyrirtækja nær allar á erlendan markað þannig að félögin eru ekki að keppa á íslenskum neytendamarkaði en það ætti að vera aðalhlutverk samkeppnisyfirvalda að tryggja stöðu íslenskra neytenda.

Fyrir þá sem til þekkja í sjávarútvegi þá kemur niðurstaða skýrslunnar ekki á óvart enda vitað að samkeppni þar er mikil. Það er grimm samkeppni milli fyrirtækja í sjávarútvegi enda fyrirtækin rekin á ólíkan hátt þegar kemur að veiðum, vinnslu, sölu og öðru því er tengist úrvinnslu afla. Það ríkir mikil samkeppni um aflaheimildir, góð skip, veiði- og, vinnslutækni og fært starfsfólk. Útávið, á erlendum mörkuðum, reyna sjávarútvegsfyrirtækin að standa saman þegar hagur lands og þjóðar er í húfi. Sumir virðast telja sig hafa pólitískan hag af því að halda því að fólki að fáir aðilar stjórni öllu í íslenskum sjávarútvegi. Það hefur leitt til þess að kallað er eftir rannsóknum á rekstri þessara fyrirtækja með tortryggni að leiðarljósi. Beita menn óspart eftirlitsstofnunum ríkisins, svo og fréttastofu ríkisins í þau verkefni. Svo þegar ekkert misjafnt finnst þá telja menn að ekki hafi verið rannsakað nægilega vel. Það er einsog þeir segja í heilbrigðiskerfinu: að það sé ekki til heilbrigður einstaklingur, það er bara til einstaklingur sem ekki er búið að rannsaka nóg!

En staðreyndir tala sínu máli. Samkeppni í sjávarútvegi er mörgum sinnum meiri en innan markaðar með matvöru og bankastarfsemi samkvæmt niðurstöðu þessarar skýrslu. Ekki voru teknar fyrir aðrar atvinnugreinar en eins og ég benti á í áðurnefndri grein minni þá ríkir fákeppni víðar en tiltekið er í skýrslunni. Nefndi ég orkusölu, sjónvarpsaðgang, tryggingarekstur, mjólkurframleiðslu, kjötframleiðslu og bensínsölu. Fleira hefði verið hægt að telja til. Væri full þörf á að það væri tekið saman og gefið út af Samkeppnisstofnun sambærilegur vegvísir fyrir almenning um hvar samkeppni er minnst og hvar mest samkeppni ríkir og birta á heimasíðu sinnu. Þessi gögn ættu heima þar alveg eins og Fiskistofa birtir allar tilfærslur á aflaheimildum báta og úthlutanir á kvóta hver báts. Það væri kannski ekki úr vegi að Verðlagsstofa tæki að sér að birta til dæmis innflutningsverð á olíu og bensíni og hvaða magn væri flutt inn hverju sinni, rétt eins og allar landanir og verð á fiski er birt hverju sinni á vef Fiskistofu og hjá Verðlagsstofu skiptaverðs.

Nýverið hefur verið sýnt framá að falsfréttir á netmiðlum fá sex sinnum meiri athygli en sannar fréttir. Samkvæmt þessu ættu sex sinnum fleiri að lesa fréttir um fákeppni í sjávarútvegi en þá staðreynd að þau eru í bullandi samkeppni. En við verðum að trúa því að sannleikurinn sigri að lokum.

[1] "Samkeppni virk og lítil samþjöppun í sjávarútvegi - Brim | Frétt." 21 Sep. 2020, https://www.brim.is/frettir/frett/2020/09/21/Samkeppni-virk-og-litil-samthjoppun-i-sjavarutvegi/?NavigationYear=2020&NavigationMonth=09. Sótt 22 Sept. 2020.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×