Knattspyrnumaðurinn Matthías Vilhjálmsson snýr aftur til FH um áramótin og hefur skrifað undir samning til þriggja ára við félagið.
Þessu greindi FH frá nú síðdegis. Matthías, sem er Ísfirðingur, kom ungur til FH og var lykilmaður í liðinu áður en hann fór út í atvinnumennsku eftir tímabilið 2011. Hann varð fjórum sinnum Íslandsmeistari og tvisvar bikarmeistari með FH áður en hann fór út.
Matthías, sem verður 34 ára í janúar, kemur til FH frá Vålerenga í Noregi þar sem hann hefur leikið í tvö ár. Þar áður varð hann Noregsmeistari fjögur ár í röð með Rosenborg, en Matthías lék einnig með Start í Noregi.
