Liðsforingjaefni úr úkraínska flughernum voru meirihluti þeirra að minnsta kosti 25 sem fórust þegar herflugvél brotlenti nærri borginni Kharkiv í austurhluta Úkraínu í gærkvöldi. Orsakir slyssins liggja ekki fyrir en ekkert bendir til þess að þau tengist hernaðarátökum í austanverðu landinu.
Flugvélin var af gerðinni Antonov-26. Bráðabirgðaniðurstöður benda til þess að liðsforingjaefnin hafi ekki stýrt vélinni þegar hún hrapaði. Tuttugu liðsforingjaefni frá háskóla flughersins í Kharkiv voru um borð í vélinni. Átján þeirra fórust en tveir eru alvarlega slasaðir, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Í tilkynningu frá öryggisþjónustu Úkraínu kom fram að flugstjóri vélarinnar hefði tilkynnt um að annar hreyfill hennar hefði bilað og óskað eftir leyfi til nauðlendingar. Vélin hrapaði aðeins sjö mínútum síðar.
Slysið varð um tvo kílómetra frá Tjúhuiv-herflugvellinum. Hann er um hundrað kílómetrum frá vígstöðvunum í Austur-Úkraínu þar sem stjórnarhermenn glíma við uppreisnarmenn hliðholla Rússlandi.
A military transport plane carrying air-force cadets crashed in northeastern Ukraine, killing at least 26 people on board https://t.co/WBBlxf7jhb pic.twitter.com/qznXbCCPaf
— Reuters (@Reuters) September 26, 2020