Íslenski boltinn

Eld­ræða Mána um Stjörnuna sem vill sjá Hilmar á kantinum: „Þvaður frá upp­hafi til enda“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Hilmar Árni í afhroðinu gegn Val á dögunum.
Hilmar Árni í afhroðinu gegn Val á dögunum. vísir/huldamargrét

Það hefur ekki gengið vel hjá Stjörnunni að undanförnu. Liðið hefur unnið tvo af síðustu tíu deildarleikjum sínum en hafa þó einungis tapað einum og það var skellurinn gegn Val í síðustu viku.

Stjarnan tapaði fyrir nágrönnum sínum í Breiðabliki á fimmtudaginn. Þrátt fyrir að leikurinn hafi endað með 2-1 sigri Breiðabliks þá voru yfirburðir Blikana miklir og sigurinn fyllilega verðskuldaður.

Guðmundur Benediktsson, Þorkell Máni Pétursson og Atli Viðar Björnsson fóru yfir í Pepsi Max Stúkunni á föstudagskvöldið hvað sé að hjá Stjörnunni.

„Blikarnir voru margfalt betri og ég held að það hefði enginn getað kvartað yfir því að þessi leikur hafi farið 3 eða 4-1,“ sagði Þorkell Máni.

„Ég næ ekki hvað Stjarnan var að brasa í þessum leik. Það er óskiljanlegt og mér fannst þeir ekki á neinum tímapunkti, fyrir utan að skora þetta mark, að þá var aldrei verið að bjóða upp á einhvern leik.“

„Maður var aldrei að hugsa: Heyrðu, Stjarnan er að fara skora. Það er eitthvað að fara gerast í Kópavoginum núna. Við erum að fara skora mark,“ sagði Þorkell Máni.

Máni, sem er mikill Stjörnumaður og hefur aldrei farið leynt með það, segir að Hilmar Árni Halldórsson sem hefur verið týndur í undanförnum leikjum eigi ekki að spila inn á miðsvæðinu.

„Hilmar Árni er í stöðu sem menn vilja kalla tíuna og sumir hafa verið með marga blauta drauma um að hann sé góð tía. Það er fyrir mér algjört þvaður frá upphafi til enda. Hilmar Árni er afleit tía að öllu leyti.“

„Þegar þú ert tíu þarftu að vera góðum í ákveðnum þáttum í varnarleik. Mér reiknast til að meirihlutinn sem Stjarnan hefur fengið á sig á þessari leiktíð hefur verið með Hilmar Árni inn í tíunni.“

„Það er auðveldara að loka svæðinu á kantinum og þar skapar hann mikið fleiri færi. Sú hugmynd að vera með hann inn í tíunni er mér algjörlega óskiljanleg,“ sagði Máni.

Alla eldræðu Mána um Stjörnuna sem og alla umræðuna um lið Stjörnunnar má sjá hér að neðan.

Klippa: Pepsi Max stúkan - Umræða um Stjörnuna

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×