Íslenski boltinn

Rýndu í rauða spjaldið sem Beitir fékk og gerði Rúnar foxillan

Sindri Sverrisson skrifar
Beitir Ólafsson gekk niðurlútur af velli eftir að hafa fengið rautt spjald gegn Fylki.
Beitir Ólafsson gekk niðurlútur af velli eftir að hafa fengið rautt spjald gegn Fylki.

„Þegar lið vinna á þennan hátt þá er það bara svindl og svínarí,“ sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, um lokin á leiknum við Fylki í gær. Kjartan Atli Kjartansson og Hjörvar Hafliðason rýndu í það sem þar gerðist í Pepsi Max tilþrifunum.

Seint í uppbótartíma leiksins fékk Beitir Ólafsson, markmaður KR, rautt spjald fyrir að slæma hendi í andlit Ólafs Inga Skúlasonar eftir að hafa sparkað boltanum fram.

„Það er óumdeilanlegt að höndin fer í andlitið á honum en svo er bara spurning; er þetta nóg til að flauta víti og til að flauta rautt spjald?“ spurði Kjartan Atli, en Fylkismenn fengu víti og úr því skoraði Sam Hewson sigurmarkið.

Telur Ólaf Inga brjóta af sér á undan

Hjörvar velti því fyrir sér hvort ekki hefði verið réttara að dæma aukaspyrnu á Ólaf Inga og vísa svo Beiti af velli.

„Ólafur Ingi segir í viðtali að hann hafi ætlað sér að trufla Beiti og hægja á honum. Hér liggur hann í bakinu á honum og er með vinstri höndina á bakinu á honum… ég held að brotið sé alltaf upprunalega Ólafs Inga. Þetta er aukaspyrna sem KR á ef þeir ætla að dæma á eitthvað, en þá rautt spjald fyrir að slá út hendinni,“ sagði Hjörvar.

„Ég upplifði þetta þannig að hann sé að trufla Beiti í kastinu, en það er ekki hægt að réttlæta það að Beitir setji höndina þarna út. En þú mátt ekkert vera að fikta í markmanni þegar hann er að reyna að koma bolta hratt í leik. Sem hann [Ólafur Ingi] gerir ekki mikið, en hann er samt enn þá fyrir aftan hann að reyna að sækja snertingu,“ sagði Hjörvar.

Atvikið og umræðuna má sjá hér að neðan.

Klippa: Tilþrifin - Rauða spjaldið á Beiti

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×