Framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins situr nú fund þar sem hún fer yfir aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar, sem forsætisráðherra kynnti á blaðamannafundi fyrir utan ráðherrabústaðinn fyrir hádegi.
Samkvæmt heimildum fréttastofu er viðbragða að vænta frá SA fljótlega upp úr hádegi. Á meðal þess sem ákveða þarf á fundi SA er hvort halda eigi atkvæðagreiðslu aðildarfyrirtækja samtakanna um uppsögn lífskjarasamningsins til streitu. Að öllu óbreyttu hefst hún á hádegi í dag.
Á meðal aðgerðanna sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kynnti í morgun er framlenging á átakinu Allir vinna, sem felur í sér fulla endurgreiðslu virðisaukaskatts, út árið 2021. Þá verður tryggingagjald lækkað tímabundið um 0,25 prósent til loka árs 2021. Aðgerðapakkann má nálgast í heild hér.