Handbolti

Gott gengi Íslendingaliðanna í Evrópukeppninni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ólafur Andrés átti frábæran leik í dag.
Ólafur Andrés átti frábæran leik í dag. Christoffer Borg Mattisson/BILDBYRÅN

Þrjú Íslendingalið eru komin áfram í 3. umferð undankeppni Evrópudeildarinnar í handbolta eftir leiki kvöldsins. Rhein-Neckar Löwen, Kristianstad og GOG eru öll komin áfram í næstu umferð.

Þýska liðið Rhein-Neckar Löwen mætti Holstebro frá Danmörku á heimavelli í dag. Þrátt fyrir eins marks sigur gestanna, 27-26, þá fór þýska félagið samt sem áður áfram eftir að hafa unnið fyrri leik liðanna með sex mörkum, 28-22. Alexander Peterssen gerði þrjú mörk í liði Löwen og þá skoraði Ýmir Örn Gíslason síðasta mark leiksins. Hjá Holsebro gerði Óðinn Þór Ríkharðsson fjögur mörk.

Sænska liðið Kristianstad lagði Azoty Pulawy frá Póllandi af velli með tveggja marka mun í dag, 24-22. Þeir unnu fyrri leikinn með eins marks mun, 25-24, og einvígið þar með með þriggja marka mun, 49-46.

Ólafur Andrés Guðmundsson fór að vana mikinn í liði Svíanna og gerði þrjú mörk ásamt því að leggja upp þónokkur til viðbótar. Þá skoraði Teitur Örn Einarsson tvívegis.

Að lokum er danska félagið GOG einnig komið áfram þrátt fyrir fjögurra marka tap gegn Pfadi Winterthur í Sviss í dag. Lokatölur 34-31 en GOG vann fyrri leikinn með níu marka mun, 33-24, og er þar með komið áfram í næstu umferð. Markvörðurinn efnilega Viktor Gísli Hallgrímsson varði átta skot í marki GOG í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×