Leik lokið: Þór Þorl. - Haukar 105-97 | Þórsarar byrja á góðum sigri Smári Jökull Jónsson skrifar 1. október 2020 21:05 Emil Karel Einarsson. Vísir/Bára Þór frá Þorlákshöfn vann góðan sigur gegn Haukum í fyrstu umferð Dominos-deildar karla í körfuknattleik en leikið var í Þorlákshöfn í kvöld. Lokatölur 105-97 og Lárus Jónssons hrósaði því sigri í fyrsta deildarleik sínum sem þjálfari Þórsara. Leikurinn var jafn allan fyrri hálfleikinn. Það var hart barist og lykilmenn Hauka, þeir Kári Jónsson og Shane Osayande, fengu báðir tvær villur í fyrsta leikhluta sem þýddi að þeir þurftu að setjast aðeins á bekkinn. Haukar voru oft á tíðum of mikið að einbeita sér að dómurum leiksins og þó svo að stundum hafi þeir haft eitthvað til síns máls í kvörtunum sínum þá eyddu þeir of mikilli orku í það. Staðan í hálfleik var 53-52 Þór í vil. Kári Jónsson var frábær fyrir hlé og skoraði 21 stig en í síðari hálfleik náðu heimamenn að hægja aðeins á honum. Það var lykillinn að forystunni sem þeir byggðu upp á þeim tíma auk þess sem vörn Hauka var oft á tíðum galopin. Larry Thomas var frábær í liði Þórsara og náði stigum á töfluna þegar heimamenn þurftu á því að halda. Það var töluverður æsingur í mönnum í fjórða leikhlutanum og Haukar héldu áfram að kvarta undan dómgæslunni. Þeir komust hins vegar aldrei sérlega nálægt því að ógna Þórsurum sem fögnuðu að lokum góðum sigri, lokatölur 105-97. Af hverju unnu Þórsarar? Þeir áttu oft á tíðum greiða leið í gegnum vörn Hauka og voru duglegir að sækja hratt um leið og gestirnir settu niður körfu eða töpuðu boltanum. Liðsheild Þórsara var sterk og Lárus þjálfari pollrólegur á hliðarlínunni og setti upp góð kerfi fyrir sína menn. Um leið og Þórsvörnin náði að loka betur á Kára Jónsson lentu Haukarnir í vandræðum og heimamenn gengu á lagið. Sex af sjö leikmönnum Þórs sem spiluðu í dag skiluðu yfir tíu framlagspunktum og það er eitthvað sem Lárus hlýtur að vera ánægður með. Þessir stóðu upp úr Larry Thomas var frábær hjá Þór, skoraði 30 stig, tók 10 fráköst og gaf 8 stoðsendingar. Nálægt þrefaldri tvennu í fyrsta leik og byrjar feril sinn með Þór heldur betur vel. Litháinn Adomas Drungilas var sömuleiðis öflugur, spilar fast en skilar mikilvægri vinnu og góðu framlagi. Ragnar Örn Bragason var sömuleiðis öflugur og allir leikmenn Þórsara lögðu í púkkið í kvöld. Hjá Haukum var Kári magnaður í fyrri hálfleik en datt niður í þeim síðari. Breki Gylfason átti sína spretti og Austin Bracy var góður fyrir hlé. Hvað gekk illa? Haukar þurfa meira frá Shane Osayande en hann sýndi í kvöld. Varnarlega voru Haukarnir sömuleiðis slakir, oft á tíðum hálfsofandi og gáfu Þórsurum mjög auðveld stig. Vítanýting gestanna var slök eins og áður segir og bæði lið hittu frekar illa fyrir utan þriggja stiga línuna í dag. Hvað gerist næst? Bæði lið eiga útileik á Suðurnesjum í næstu umferð, Þórsarar halda til Keflavíkur en Haukar mæta Njarðvík í Ljónagryfjunni. Lárus: Strákarnir eru búnir að leggja mikla vinnu á sig Lárus Jónsson þjálfari Þórs frá Þorlákshöfn var afar ánægður með sigur sinna manna gegn Haukum í 1.umferð Dominos-deildarinnar. Lokatölur í leiknum í kvöld voru 105-97. „Mér fannst við lengst af spila góðan körfubolta og mér fannst við eiginlega eiga að vera meira yfir í leiknum heldur en staðan sýndi. Kári (Jónsson) og (Austin) Bracy náðu að halda þeim inni í leiknum í fyrri hálfleik. Kári var með 21 stig í hálfleik en svo náðum við að hægja aðeins á honum. Ég held að það hafi verið lykillinn að sigrinum,“ sagði Lárus í samtali við Vísi eftir leikinn í kvöld. Þórsarar náðu að skora 105 stig í kvöld en þeir keyrðu oft á Haukana og náðu oft upp fínum hraða í sinn leik. „Það var fínt flæði á köflum og við náðum að skora frekar auðveldlega í bakið á þeim, ég var ánægður með það. Mér fannst við vera aðeins of staðir í seinni hálfleik og náðum ekki sama flæði í sóknina.“ Lárus sagðist vera ánægður með þann hóp sem væri búið að setja saman í Þorlákshöfn. „Mjög ánægður. Þetta er mjög góður kjarni af heimamönnum og svo kryddum við þetta með erlendum leikmönnum. Okkur vantaði náttúrulega einn af okkar bestu mönnum og ég er mjög ánægður með að hinir leikmennirnir stigu upp og bættu þessum aukastigum inn fyrir hann,“ bætti Lárus við en Halldór Garðar Hermannsson lék ekki með Þór í kvöld. Þórsarar eru komnir með tvö stig í deildinni eftir þennan sigur, góð byrjun fyrir nýjan þjálfara liðsins. „Við erum ekkert endilega að byrja þetta vel núna. Við erum búnir að leggja mikla vinnu á okkur síðan í ágúst, þar sem við vorum að hlaupa í tvær vikur án þess að nota bolta. Þannig byrjaði þetta, burtséð frá því hvernig þessi leikur fór finnst mér strákarnir vera búnir að leggja mikla vinnu á sig og uppskera eftir því,“ sagði Lárus að lokum. Israel Martin er þjálfari Hauka. Martin: Ég einbeiti mér að hlutum sem ég get stjórnað Israel Martin þjálfari Hauka var ekki ánægður með leik sinna manna í kvöld þegar þeir biðu lægri hlut gegn Þór í fyrstu umferð Dominos-deildarinnar. „Mér fannst við byrja leikinn mjög flatir, vorum ekki nógu sterkir, vorum seinir í vörn og þeir skoruðu mikið á okkur í hröðum sóknum. Við vissum að þeir myndu gera þetta og vorum búnir að ræða það en náðum samt ekki að stoppa þá,“ sagði Martin í samtali við Vísi eftir leikinn í kvöld. Þórsarar náðu ágætri forystu í þriðja leikhlutanum sem þeir létu aldrei af hendi, þeir leiddu nær allan tímann og sigurinn verður að teljast sanngjarn. „Þeir fengu oft auðveld stig og í lokin og þá vorum við aldrei yfir, vorum alltaf að elta en vorum aldrei sérlega nálægt þeim. Í lokin reyndum við að breyta taktinum í leiknum með því að fara í svæðisvörn og mér fannst það ganga ágætlega. Í sókninni flýttum við okkur of mikið, áttum sénsinn á að minnka muninn í tvö stig og það var stórt augnablik í leiknum þegar það tókst ekki.” Martin var líflegur á hliðarlínunni og lét sína menn oft á tíðum heyra það. „Í heildina börðumst við ágætlega og öll liðin eru auðvitað í leit að sínu besta formi. Auðvitað er ég ekki ánægður með að tapa í fyrsta leik en það er margt sem við höfum að hlakka til og við mætum klárir í næsta leik.” „Við sýndum í síðasta leikhlutanum að við getum verið harðir í vörninni, við getum spilað grimma vörn og gert það af sömu gæðum og þeir. En við verðum að vera stöðugri en ekki byrja á því í lok leiksins, við þurfum að gera það frá byrjun. Þeir unnu baráttuna í dag og við þurfum að stjórna leiknum betur.” Haukar misnotuðu 10 vítaskot í dag sem var þeim dýrkeypt. „Það er eitthvað sem ég get ekki stjórnað, ég einbeiti mér að hlutum sem ég get stjórnað. Þegar ég lít á stigatöfluna stendur að við höfum fengið á okkur 105 stig, það er erfitt að vinna þannig. Víti eru hluti af leiknum, þriggja stiga skot og sniðskot. Tapaðir boltar og vörn er það sem við getum unnið í og það ætlum við að gera.“ Dominos-deild karla Þór Þorlákshöfn Haukar
Þór frá Þorlákshöfn vann góðan sigur gegn Haukum í fyrstu umferð Dominos-deildar karla í körfuknattleik en leikið var í Þorlákshöfn í kvöld. Lokatölur 105-97 og Lárus Jónssons hrósaði því sigri í fyrsta deildarleik sínum sem þjálfari Þórsara. Leikurinn var jafn allan fyrri hálfleikinn. Það var hart barist og lykilmenn Hauka, þeir Kári Jónsson og Shane Osayande, fengu báðir tvær villur í fyrsta leikhluta sem þýddi að þeir þurftu að setjast aðeins á bekkinn. Haukar voru oft á tíðum of mikið að einbeita sér að dómurum leiksins og þó svo að stundum hafi þeir haft eitthvað til síns máls í kvörtunum sínum þá eyddu þeir of mikilli orku í það. Staðan í hálfleik var 53-52 Þór í vil. Kári Jónsson var frábær fyrir hlé og skoraði 21 stig en í síðari hálfleik náðu heimamenn að hægja aðeins á honum. Það var lykillinn að forystunni sem þeir byggðu upp á þeim tíma auk þess sem vörn Hauka var oft á tíðum galopin. Larry Thomas var frábær í liði Þórsara og náði stigum á töfluna þegar heimamenn þurftu á því að halda. Það var töluverður æsingur í mönnum í fjórða leikhlutanum og Haukar héldu áfram að kvarta undan dómgæslunni. Þeir komust hins vegar aldrei sérlega nálægt því að ógna Þórsurum sem fögnuðu að lokum góðum sigri, lokatölur 105-97. Af hverju unnu Þórsarar? Þeir áttu oft á tíðum greiða leið í gegnum vörn Hauka og voru duglegir að sækja hratt um leið og gestirnir settu niður körfu eða töpuðu boltanum. Liðsheild Þórsara var sterk og Lárus þjálfari pollrólegur á hliðarlínunni og setti upp góð kerfi fyrir sína menn. Um leið og Þórsvörnin náði að loka betur á Kára Jónsson lentu Haukarnir í vandræðum og heimamenn gengu á lagið. Sex af sjö leikmönnum Þórs sem spiluðu í dag skiluðu yfir tíu framlagspunktum og það er eitthvað sem Lárus hlýtur að vera ánægður með. Þessir stóðu upp úr Larry Thomas var frábær hjá Þór, skoraði 30 stig, tók 10 fráköst og gaf 8 stoðsendingar. Nálægt þrefaldri tvennu í fyrsta leik og byrjar feril sinn með Þór heldur betur vel. Litháinn Adomas Drungilas var sömuleiðis öflugur, spilar fast en skilar mikilvægri vinnu og góðu framlagi. Ragnar Örn Bragason var sömuleiðis öflugur og allir leikmenn Þórsara lögðu í púkkið í kvöld. Hjá Haukum var Kári magnaður í fyrri hálfleik en datt niður í þeim síðari. Breki Gylfason átti sína spretti og Austin Bracy var góður fyrir hlé. Hvað gekk illa? Haukar þurfa meira frá Shane Osayande en hann sýndi í kvöld. Varnarlega voru Haukarnir sömuleiðis slakir, oft á tíðum hálfsofandi og gáfu Þórsurum mjög auðveld stig. Vítanýting gestanna var slök eins og áður segir og bæði lið hittu frekar illa fyrir utan þriggja stiga línuna í dag. Hvað gerist næst? Bæði lið eiga útileik á Suðurnesjum í næstu umferð, Þórsarar halda til Keflavíkur en Haukar mæta Njarðvík í Ljónagryfjunni. Lárus: Strákarnir eru búnir að leggja mikla vinnu á sig Lárus Jónsson þjálfari Þórs frá Þorlákshöfn var afar ánægður með sigur sinna manna gegn Haukum í 1.umferð Dominos-deildarinnar. Lokatölur í leiknum í kvöld voru 105-97. „Mér fannst við lengst af spila góðan körfubolta og mér fannst við eiginlega eiga að vera meira yfir í leiknum heldur en staðan sýndi. Kári (Jónsson) og (Austin) Bracy náðu að halda þeim inni í leiknum í fyrri hálfleik. Kári var með 21 stig í hálfleik en svo náðum við að hægja aðeins á honum. Ég held að það hafi verið lykillinn að sigrinum,“ sagði Lárus í samtali við Vísi eftir leikinn í kvöld. Þórsarar náðu að skora 105 stig í kvöld en þeir keyrðu oft á Haukana og náðu oft upp fínum hraða í sinn leik. „Það var fínt flæði á köflum og við náðum að skora frekar auðveldlega í bakið á þeim, ég var ánægður með það. Mér fannst við vera aðeins of staðir í seinni hálfleik og náðum ekki sama flæði í sóknina.“ Lárus sagðist vera ánægður með þann hóp sem væri búið að setja saman í Þorlákshöfn. „Mjög ánægður. Þetta er mjög góður kjarni af heimamönnum og svo kryddum við þetta með erlendum leikmönnum. Okkur vantaði náttúrulega einn af okkar bestu mönnum og ég er mjög ánægður með að hinir leikmennirnir stigu upp og bættu þessum aukastigum inn fyrir hann,“ bætti Lárus við en Halldór Garðar Hermannsson lék ekki með Þór í kvöld. Þórsarar eru komnir með tvö stig í deildinni eftir þennan sigur, góð byrjun fyrir nýjan þjálfara liðsins. „Við erum ekkert endilega að byrja þetta vel núna. Við erum búnir að leggja mikla vinnu á okkur síðan í ágúst, þar sem við vorum að hlaupa í tvær vikur án þess að nota bolta. Þannig byrjaði þetta, burtséð frá því hvernig þessi leikur fór finnst mér strákarnir vera búnir að leggja mikla vinnu á sig og uppskera eftir því,“ sagði Lárus að lokum. Israel Martin er þjálfari Hauka. Martin: Ég einbeiti mér að hlutum sem ég get stjórnað Israel Martin þjálfari Hauka var ekki ánægður með leik sinna manna í kvöld þegar þeir biðu lægri hlut gegn Þór í fyrstu umferð Dominos-deildarinnar. „Mér fannst við byrja leikinn mjög flatir, vorum ekki nógu sterkir, vorum seinir í vörn og þeir skoruðu mikið á okkur í hröðum sóknum. Við vissum að þeir myndu gera þetta og vorum búnir að ræða það en náðum samt ekki að stoppa þá,“ sagði Martin í samtali við Vísi eftir leikinn í kvöld. Þórsarar náðu ágætri forystu í þriðja leikhlutanum sem þeir létu aldrei af hendi, þeir leiddu nær allan tímann og sigurinn verður að teljast sanngjarn. „Þeir fengu oft auðveld stig og í lokin og þá vorum við aldrei yfir, vorum alltaf að elta en vorum aldrei sérlega nálægt þeim. Í lokin reyndum við að breyta taktinum í leiknum með því að fara í svæðisvörn og mér fannst það ganga ágætlega. Í sókninni flýttum við okkur of mikið, áttum sénsinn á að minnka muninn í tvö stig og það var stórt augnablik í leiknum þegar það tókst ekki.” Martin var líflegur á hliðarlínunni og lét sína menn oft á tíðum heyra það. „Í heildina börðumst við ágætlega og öll liðin eru auðvitað í leit að sínu besta formi. Auðvitað er ég ekki ánægður með að tapa í fyrsta leik en það er margt sem við höfum að hlakka til og við mætum klárir í næsta leik.” „Við sýndum í síðasta leikhlutanum að við getum verið harðir í vörninni, við getum spilað grimma vörn og gert það af sömu gæðum og þeir. En við verðum að vera stöðugri en ekki byrja á því í lok leiksins, við þurfum að gera það frá byrjun. Þeir unnu baráttuna í dag og við þurfum að stjórna leiknum betur.” Haukar misnotuðu 10 vítaskot í dag sem var þeim dýrkeypt. „Það er eitthvað sem ég get ekki stjórnað, ég einbeiti mér að hlutum sem ég get stjórnað. Þegar ég lít á stigatöfluna stendur að við höfum fengið á okkur 105 stig, það er erfitt að vinna þannig. Víti eru hluti af leiknum, þriggja stiga skot og sniðskot. Tapaðir boltar og vörn er það sem við getum unnið í og það ætlum við að gera.“
Uppgjörið: KR - Grindavík 120-112 | KR fór með sigur úr framlengingu gegn fáliðuðum Grindvíkingum