Alexei Navalní, rússneski stjórnarandstæðingurinn, sakar Vladímír Pútín, forseta Rússlands, um að hafa staðið að baki því að eitrað var fyrir honum með taugaeitrinu novichok í ágúst. Stjórnvöld í Kreml hafa hafnað slíkum ásökunum og ekki talið ástæðu til að rannsaka eitrun Navalní sem sakamál.
Í fyrsta viðtali sínu frá því að eitrað var fyrir honum segir Navalní við þýska tímaritið Der Spiegel að í hans huga hafi „Pútin verið að baki árásinni“.
„Ég hef enga aðra útgáfu af því hvernig glæpurinn var framinn,“ segir Navalní í viðtalinu sem verður birt í heild í dag, að sögn AP-fréttastofunnar.
Navalní veiktist hastarlega í flugvél í Rússlandi 20. ágúst. Hann féll í dá og grunaði aðstandendur hans strax að eitrað hefði verið fyrir honum. Nokkrum dögum síðar var Navalní fluttur á sjúkrahús í Berlín. Sérfræðingar í Þýskalandi segja að honum hafi verið byrlað novichok, taugeitur sem var þróað í Sovétríkjunum. Hann er nú á batavegi.
Ríkisstjórn Pútín vísaði ásökunum Navalní á bug í dag og sagði þær „algerlega stoðlausar og óásættanlegar“. Sakaði Dmitrí Peskov, talsmaður Pútín, Navalní um að starfa samkvæmt fyrirmælum bandarísku leyniþjónustunnar CIA.
„Það eru upplýsingar um að þessir leiðbeinendur vinni með honum þessa dagana. Fyrirmælin sem sjúklingurinn fær eru augljós. Við höfum séð slíka hegðun oftar en einu sinni,“ sagði Peskov án frekari skýringa.
Novichok er sama eitrið og notað var til þess að reyna að ráða Sergei Skrípal, rússneskan uppgjafarnjósnara, og dóttur hans bana í bænum Salisbury á Englandi í mars árið 2018. Bresk stjórnvöld sökuðu stjórn Pútín um að hafa staðið að því tilræði. Bresk kona lést eftir að hún komst í snertingu við leifar eitursins sem rússnesku útsendararnir skildu eftir sig.
Fjöldi blaðamanna, stjórnarandstæðinga og pólitískra andstæðinga Pútín hafa látið lífið á voveiflegan hátt í um tveggja áratuga langri stjórnartíð rússneska forsetans.