Innlent

Margir í partíum án þess að passa sig

Samúel Karl Ólason og Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifa
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir. Vísir/Vilhelm

Íslendingar eru búnir að halda of mikið af samkvæmum á undanförnum vikum. Mörg þessara samkvæma hafa leitt til dreifingar nýju kórónuveirunnar, sem veldur Covid-19. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir að meðal þeirra sem hafi verið að greinast smitaðir að undanförnu sé mikið um vinahópa og fjölskyldur.

Sömuleiðis hafi komið upp smit á líkamsræktarstöðvum.

„Það er erfitt að ná til fólks og það er kannski erfitt að fá fólk til að fara eftir þessu og þá sérstaklega fólk í sínum vinakreðsum. Það er eins og fólk haldi að það geti haldið fimmtíu eða hundrað manna partí án þess að passa sig, bara af því að allir eru vinir,“ segir Þórólfur í samtali við fréttastofu.

Það geti tekið veiruna mjög stuttan tíma að dreifast á milli fólks við slíkar aðstæður.

Þórólfur sagði mögulegt að koma þyrfti því betur til skila að fólk passi sig vel í vinahópum sínum og haldi ekki að sóttvarnarreglur og tilmæli gildi um aðra en ekki það sjálft.

Þórólfur hefur lagt til að gripið verði til hertra sóttvarnaraðgerða í kjölfar þess að 61 greindist með veiruna í gær og þar af hafi einungis þriðjungur verið í sóttkví.

Þær tillögur verða ræddar á ríkisstjórnarfundi klukkan tvö í dag.

Þórólfur segir að horft verði í þá reynslu sem fékkst af hörðum aðgerðum í mars og hverju þær skiluðum. Verður stuðst við það.

„Ég legg til fjöldatakmarkanir, meiri grímuskyldu og lokanir á ýmissi starfsemi,“ segir Þórólfur en tekur fram að lokanirnar verði ekki eins umfangsmiklar og í mars.


Tengdar fréttir

61 greindist og 39 ekki í sóttkví

61 greindist með kórónuveiruna innanlands í gær. 22 þeirra sem greindust voru í sóttkví við greiningu, 39 ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×