Innlent

Vilja ekki að fólk á aldrinum 18 til 29 komi í heimsókn á Hrafnistu

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Frá Hrafnistu Laugarási.
Frá Hrafnistu Laugarási. Hrafnista

Breyttar heimsóknarreglur hafa tekið gildi á öllum Hrafnistuheimilunum frá og með deginum í dag að því er fram kemur í tilkynningu frá neyðarstjórn Hrafnistu. Aðeins einn gestur má heimsækja hvern íbúa og er mælst til þess að viðkomandi sé „nánast í sjálfskipaðri sóttkví.“ Þá óskar Hrafnista eftir því að gestir séu ekki á aldrinum 18 til 29 ára.

Þar sem COVID-19 smitum hefur aftur fjölgað í samfélaginu telur neyðarstjórnin nauðsynlegt að bregðast við og hefur því ákveðið að takmarka fjölda heimsóknargesta.

„Aðeins einn gestur má heimsækja hvern íbúa á fyrirfram ákveðnum heimsóknartíma hvers heimilis. Óskað er eftir því að sá hinn sami sé nánast í sjálfskipaðri sóttkví og passi sig sérstaklega. Allir gestir þurfa að koma með andlitsgrímu (maska). Óheimilt er að koma með taugrímu,“ segir í tilkynningunni.

„Þar sem flest smit í þjóðfélaginu eru á aldursbilinu 18-29 ára óskar Hrafnista eftir því að heimsóknargestur sé ekki á því aldursbili. Börn undir 18 ára geta ekki komið í heimsókn. Jafnframt er þess óskað að heimsóknargestir komi í mesta lagi tvisvar í viku sé þess unnt. Undanþága er aðeins veitt við mikil veikindi íbúa og þarf að fá leyfi vaktstjóra deildar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×