Erlent

Ættingi Tom Hagen á­kærður fyrir af­skipti af fram­burði vitnis

Sylvía Hall skrifar
Heimili Hagen-hjónanna í Fjellhamar í Lørenskógi.
Heimili Hagen-hjónanna í Fjellhamar í Lørenskógi. EPA/OLE BERG-RUSTEN

Lögreglan í Lørenskog hefur grun um að ættingi norska auðkýfingsins Tom Hagen hafi reynt að hafa áhrif á vitnisburð eins vitnis í rannsókn lögreglunnar á hvarfi Anne-Elisabeth Hagen. Ekkert hefur spurst til Anne-Elisabeth, eiginkonu Tom, síðan 31. október árið 2018.

Í samtali við norska dagblaðið VG staðfestir Trond Eirik Aansløkken, verjandi mannsins, að umræddur ættingi hafi verið ákærður en brot hans eru sögð varða við 157. gr. norskra hegningarlaga. Aansløkken segir umbjóðanda sinn neita sök.

Samkvæmt heimildum blaðsins hefur vitnið verið yfirheyrt í það minnsta tvisvar síðan Anne-Elisabeth hvarf fyrir tveimur árum síðan. Á það að hafa gefið nákvæmar upplýsingar um hjónaband þeirra Tom og Anne-Elisabeth og deilur.

Fram hefur komið að Anne-Elisabeth sagði nokkrum nákomnum sér að hjónaband þeirra Toms væri stormasamt. Jafnframt hafi ýmislegt bent til þess að hún hafi viljað skilja við mann sinn áður en hún hvarf.

Tom Hagen er hins vegar sagður hafa haldið því fram í fyrstu að þau hjónin hafi aldrei rætt skilnað þá áratugi sem þau hafa verið saman. Hann var handtekinn í lok apríl, grunaður um að hafa myrt Anne-Elisabeth eða átt aðild að dauða hennar. Hann var látinn laus úr varðhaldi í byrjun maímánaðar og hefur alla tíð neitað sök.

Hann hefur heitið því að greiða þeim sem veitt getur upplýsingar sem leiða til þess að Anne Elisabeth Hagen, eiginkona hans, finnist tíu milljónir norskar krónur, um 140 milljónir íslenskra króna.


Tengdar fréttir

Varð hræddur og skráði húsið á sig

Norski auðkýfingurinn Tom Hagen kveðst hafa orðið hræddur um að honum yrði úthýst af heimili sínu og eiginkonu sinnar, Anne-Elisabeth Hagen, á tíunda áratug síðustu aldar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×