Innlent

Segir ómögulegt að undanskilja ákveðna landshluta

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Víðir hefur eftir Þórólfi að aðgerðirnar verði að ná til alls landsins. Ekki dugi að grípa til aðgerða á suðvesturhorninu.
Víðir hefur eftir Þórólfi að aðgerðirnar verði að ná til alls landsins. Ekki dugi að grípa til aðgerða á suðvesturhorninu. Vísir/Vilhelm

Ómögulegt er að undanskilja ákveðna landshluta undan hertum sóttvarnaraðgerðum sem taka gildi á miðnætti að mati Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns.

Tryggvi Kristjánsson, eigandi líkamsræktarstöðvar á Akureyri, hefur gagnrýnt þá ákvörðun að loka líkamsræktarstöðvum í að minnsta kosti í tvær vikur. Þannig sagði hann í samtali við fréttastofu í gær að vissulega sé smitbylgja á höfuðborgarsvæðinu en fásinna sé að loka líkamsræktarstöðvum í landshlutum þar sem smit hafi varla mælst.

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir að það hafi verið skoðað að herða aðeins aðgerðir á höfuðborgarsvæðinu. „Það er auðvitað þannig að það eru miklu færri smit úti á landi,“ segir Víðir. Engu að síður séu smit á flestum stöðum.

„Í svona faraldri þá segir sóttvarnalæknir að það sé ekki hægt að vera með þetta á einum stað en ekki öðrum þegar faraldurinn er orðinn svona stór. Þá muni þetta fara um alla staði og þess vegna þurfum við beita þessum aðgerðum alls staðar því miður,“ segir Víðir.

Frá og með miðnætti taka hertar sóttvarnaraðgerðir gildi en þá mega aðeins tuttugu manns koma saman.


Tengdar fréttir

Samkomur takmarkaðar við 20 manns

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tilkynnti rétt í þessu að samkomur yrðu takmarkaðar við 20 manns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×