Innlent

Telur meiri áhættu af áhorfendum kappleikja en leiksýninga

Birgir Olgeirsson skrifar
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir. 
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.  Vísir/Vilhelm

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, telur meiri áhættu fólgna í því að leyfa áhorfendur á kappleikjum heldur en í leikhúsum. Í tillögum sóttvarnalæknis um samkomutakmarkanir tilgreinir hann að keppnisíþróttir séu leyfðar með snertingu. Hámarksfjöldi þeirra sem tekur þátt er 50 einstaklingar.

Í tillögum sóttvarnalæknis eru áhorfendur ekki leyfðir. Í reglugerð heilbrigðisráðherra um samkomutakmarkanir verður óheimilt að hafa áhorfendur á íþróttaviðburðum innandyra. Utandyra verður þó heimilt að hafa áhorfendur, allt að 100 í hverju rými, að því gefnu að gestir sitji í númeruðum sæti sem skráð eru á nafn og noti andlitsgrímu.

Í tillögum Þórólfs varðandi sviðslistir er snerting milli leikenda og flytjenda leyfðar. Við viðburði þar sem allir sitja verði gerð krafa um númeruð sæti og nafn gesta verði skráð. Heimilt verði að hafa 100 manns í hólfi og áhorfendur noti grímur.

En hvernig rökstyður Þórólfur að leyfa áhorfendur í leikhúsum en ekki á kappleikjum?

„Ég rökstyð það þannig að í leikhúsum er ákveðinn hópur fólks. Þetta eru eldri einstaklingar. Áhorfendur verða með grímur og sitja á ákveðnum stöðum. Við gerum kröfu um að fólk sé í númeruðum sætum og við höfum ekki verið að sjá nein smit í tengslum við þessa atburði,“ svarar Þórólfur.

Annað mál sé með íþróttirnar.

„Við höfum verið að sjá smit tengjast þeim á marga vegu. Ég held að það sé meiri áhætta í því fólgin og á því byggja mínar tillögur,“ segir Þórólfur.

Hann segir áhorfendur á kappleikjum séu meira á hreyfingu og láta frekar í sér heyra heldur en þeir sem horfa á leiksýningu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×