Innlent

Grímuskylda í Strætó tekur gildi á mánudag

Sylvía Hall skrifar
Skylda verður að bera grímu í strætisvögnum frá og með morgundeginum.
Skylda verður að bera grímu í strætisvögnum frá og með morgundeginum. Vísir/Vilhelm

Frá og meðan morgundeginum, mánudegi, þurfa þeir sem ferðast með strætisvögnum að nota andlitsgrímur á meðan ferðinni stendur. Hingað til hefur verið grímuskylda í ferðum Strætó á landsbyggðinni og er hún áfram í gildi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Strætó, en þar segir að skyldan eigi þó ekki við um börn fædd 2005 og seinna.

Þeim viðskiptavinum sem ekki bera andlitsgrímur er óheimilt að nýta sér almenningssamgöngur.

Viðskiptavinir munu þurfa að útvega sér eigin andlitsgrímur og skulu þær hylja nef og munn. Þá eru farþegar beðnir um að nota strætó-appið eða strætókort til þess að greiða fargjaldið.

Strætó brýnir jafnframt fyrir farþegum að huga að hreinlæti og sóttvörnum og ferðast ekki með vögnunum ef þeir finna fyrir flensueinkennum.

„Við biðjumst velvirðingar á þessum óþægilega fyrirvara. Við gerum okkur fullkomlega grein fyrir því að hann er afar stuttur. Við vorum í samskiptum við almannavarnir í dag, en loka útgáfa reglugerðarinnar birtist okkur ekki fyrr en í kvöld,“ segir í tilkynningu frá Strætó.


Tengdar fréttir

Lesrýmum lokað í Háskóla Íslands

Í ljósi hertra samkomutakmarkana innanlands og fjölgunar smita í samfélaginu hefur verið ákveðið að loka lesrýmum grunn- og meistaranema í Háskóla Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×