Erlent

Bar grímu og gaf myndavélum þumal á leiðinni út af sjúkrahúsinu

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Donald Trump gekk út af Walter Reed-herspítalanum í kvöld þaðan sem hann hélt aftur með þyrlu í Hvíta húsið eftir þriggja daga dvöl á spítala.
Donald Trump gekk út af Walter Reed-herspítalanum í kvöld þaðan sem hann hélt aftur með þyrlu í Hvíta húsið eftir þriggja daga dvöl á spítala. AP/Evan Vucc

Donald Trump Bandaríkjaforseti er farinn af Walter Reed-sjúkrahúsinu. Forsetinn var fluttur með þyrlu frá sjúkrahúsinu og til baka í Hvíta húsið fyrr í kvöld en hann greindi sjálfur frá því á Twitter í dag að hann hygðist yfirgefa spítalann í kvöld.

Forsetinn bar grímu fyrir vitum sér, lyfti þumalfingri og reisti hnefann fyrir myndavélar sem hann gekk út af spítalanum. Sean P. Conley, læknir forsetans, segir þó að ekki verði „endanlega hægt að anda léttar“ fyrr en í fyrsta lagi eftir viku.

Trump dvaldi alls í þrjár nætur á sjúkrahúsinu en þótt hann sé nú snúinn til baka í Hvíta húsið er hann þó að sögn Conley læknis ekki alveg laus allra mála eftir að hafa greinst smitaður af covid-19. „Síðasta sólarhringinn hefur ástand forsetans haldið áfram að batna,“ sagði Conley við blaðamenn utan við sjúkrahúsið í kvöld og bætti við að forsetinn uppfylli allar kröfur til þess að útskrifast.

Forsetinn var fluttur með þyrlu aftur í Hvíta húsið. AP/Alex Brandon

Hann svaraði jafnframt spurningum blaðamanna um ástand forsetans og greindi frá því að hann hafi fengið þriðja skammtinn af veirulyfinu remdesivir og að hann haldi áfram að taka dexamethasone, steralyf sem hafi sýnt sig að verki vel á sjúklinga sem hafa orðið mjög veikir af covid-19.

„Við horfum til helgarinnar,“ sagði Conley. „Ef við getum komist í gegnum mánudaginn, með hann í sama ástandi eða betra, þá getum við loksins andað léttar.“ Hann svaraði því ekki með skýrum hætti hvort forsetinn yrði í einangrun á heimili sínu.

Hér má sjá Donald Trump við það að taka af sér grímuna eftir að vera mættur til baka í Hvíta húsið. AP/Alex Brandon

Fjöldi covid-19 smitaðra sem starfa í vestur álmu Hvíta hússins hefur farið vaxandi undanfarna daga en síðast í dag bættist blaðafulltrúi Trump, Keyleigh McEnany, í hóp þeirra starfsmanna sem sýktir eru af veirunni. Fleiri en 200 þúsund eru látnir í Bandaríkjunum af völdum covid-19 eftir að faraldurinn hófst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×