Erlent

Segir að eitrað hafi verið fyrir sér vegna þingkosninga

Samúel Karl Ólason skrifar
Alexei Navalní telur að bataferli sitt muni taka um tvo mánuði til viðbótar.
Alexei Navalní telur að bataferli sitt muni taka um tvo mánuði til viðbótar. AP/Instagram

Stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalní telur að leyniþjónusta Rússlands hafi eitrað fyrir honum, því yfirvöld í Kreml hafi talið hann vera ógn fyrir þingkosningarnar á næsta ári. Hann segir æðstu ráðamenn í Rússlandi átta sig á því að þeir standi frammi fyrir stórum vandamálum varðandi kosningarnar.

Þetta sagði Navalní í viðtali við rússneskan bloggara sem birt var á Youtube og Reuters fréttaveitan hefur skrifað um. Þetta var í fyrsta sinn sem myndband af honum birtist frá því hann var útskrifaður af sjúkrahúsi.

Navalní veiktist hastarlega í flugvél í Rússlandi 20. ágúst. Hann féll í dá og grunaði aðstandendur hans strax að eitrað hefði verið fyrir honum. Nokkrum dögum síðar var Navalní fluttur á sjúkrahús í Berlín. Sérfræðingar í Þýskalandi segja að honum hafi verið byrlað novichok, taugeitur sem var þróað í Sovétríkjunum.

Vísindamenn í Svíþjóð og Frakklandi komust að sömu niðurstöðu. Ríkisstjórn Pútíns hafnar þó alfarið þessum ásökunum og hafa jafnvel lagt til að Navalní hafi eitrað fyrir sér sjálfur með því markmiði að fá athygli.

Sjá einnig: Frakkar og Svíar staðfesta eitrun Navalny

Navalní hefur áður sagst sannfærður um að Vladímír Pútín, forseti Rússlands, hafi staðið að baki því að eitrað var fyrir honum.

Í áðurnefndu viðtali sagðist Navalní ekki vita hvernig eitrað hafi verið fyrir honum en fregnir hafa borist af nokkrum kenningum og staðhæfingum í þeim málum. Hann sagði nú mögulegt að hann hafi snert eitthvað sem búið var að setja eitrið á, eins og gert var við Sergei Skripal.

Sjá einnig: Pútín kallar Skripal svikara og drullusokk

Navalní sagði einnig að hann ætti von á því að bataferli hans myndi taka tvo mánuði til viðbótar og hélt hann út hönd sinni til að sýna að hún skalf. Hann sagði að hann væri nú í sjúkraþjálfun og heilsa hans hefði batnað til muna. Læknar væru undrandi á hröðum bata hans.


Tengdar fréttir

Hafi inn­byrt eitrið úr vatns­flösku á hótel­her­bergi

Rússneski stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalní er sagður hafa innbyrt taugaeitrið novichok úr vatnsflösku sem hann drakk úr á hótelherbergi sínu í síberísku borginni Tomsk en ekki á flugvellinum í borginni líkt og áður var talið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×