Innlent

Smitin tengjast nánast öllu mögulegu

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Víðir Reynisson segir hópsýkinguna í Hnefaleikafélagi Kópavogs eina þá stærstu sem sést hefur í faraldrinum hér á landi. 
Víðir Reynisson segir hópsýkinguna í Hnefaleikafélagi Kópavogs eina þá stærstu sem sést hefur í faraldrinum hér á landi.  Vísir/Vilhelm

Kórónuveirusmitin sem hafa verið að greinast tengjast nánast öllu mögulegu, að sögn Víðis Reynissonar, yfirlögregluþjóns hjá almannavörnum. Langflest smit sem greindust í gær komu upp á höfuðborgarsvæðinu, eða 95 af 99 í heildina.

„Smitin eru að tengjast fjölskyldum, þau eru að tengjast vinnustöðum, gönguhópum, hlaupahópum, það er eitt og eitt að koma upp tengt líkamsræktarstöðvum og ýmis konar afþreyingarstarfsemi sem er í gangi,“ sagði Víðir á upplýsingafundi almannavarna í dag.

„Þannig að þetta er bara mjög víða og erfitt að setja puttann á hvað nákvæmlega það er.“

Aðspurður sagði hann hópsýkinguna í Hnefaleikafélagi Kópavogs eina þá stærstu sem sést hefur hér, en þar greindist á fjórða tug fólks.

„Við erum ekki með neina aðra svona stóra hópsýkingu enda er þetta tilfelli sem tengist Hnefaleikafélagi Kópavogs svona með því stærra sem við höfum séð bara í faraldrinum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×