Trúnaðarmaður hjá Álverinu í Straumsvík telur að meirihluti starfsfólks greiði atkvæði með verkfallsaðgerðum. Atkvæðagreiðslunni lýkur í dag.
Ríflega 300 starfsmenn Álversins í Straumsvík í fimm stéttarfélögum greiða atkvæði um hvort að farið verði í verkfallsaðgerðir frá og með 16. október. Verði það ákveðið fara ákveðnar starfstéttir í Álverinu í dagleg verkföll út nóvember. Ef ekki verður samið fyrir þann tíma hefst allsherjarverkfall.
Reinhold Richter er trúnaðarmaður starfsfólks.
„Við erum með lausan kjarasamningsamning og höfum fengið fyrstu hækkunina úr lífskjarasamningshækkunum eða um 17.000 og eigum eftir að sækja 73.000 inná taxtaumhverfið okkar úr líkfskjarasamningnum en það hefur ekki gengið að fá þá hækkun,“ segir Reinhold.
Atkvæðagreiðslunni lýkur um hádegi og um klukkan 2 kemur niðurstaðan í ljós. Reinhold segir að margt í umhverfinu hafi verið jákvætt fyrir rekstur álversins.
„Dollarinn hagstæður og álver er að fara upp. En þeir hafa sett okkur í þessa erfiða stöðu að tefla okkur fram sem peði í baráttu við ríkið og Landsvirkjun í sambandi við orkukaup,“ segir Reinhold.
Hann segir þungt hljóð í starfsfólki.
„Eins og þetta hefur verið þá held ég afgerandi vilji starfsmanna að fá kjarasamning og þeir vilji beita öllum þeim aðferðum sem hægt er til að fá það fram þannig að ég spái því að meirihlutinn greiði atkvæði með verkfallsaðgerðum,“ segir Reinhold Richter.