Sævar Þór Jónsson lögmaður hefur alls tilkynnt Landlæknisembættinu um mál átta kvenna vegna mögulegra mistaka við krabbameinsgreiningu hjá Krabbameinsfélagi Íslands. Þetta kom fram í máli Sævars í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Hann greindi jafnframt frá því að mál Guðnýjar Láru Árnadóttur hefði verið tilkynnt til Landlæknis og í kjölfarið verði skoðaður grundvöllur til bótakröfu. Guðný sagði sögu sína í kvöldfréttum en hún fór í leghálsskimun hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins árið 2013 án athugasemda. Árið 2018 greindist hún með alvarlegt krabbamein í legi eftir skimun í Danmörku og fór í kjölfarið í legnám.
Sævar sagði að hann væri með annað sambærilegt mál til skoðunar. Þar væri um að ræða konu sem farið hefði í sýnatöku hjá Krabbameinsfélaginu árið 2017. Hún hefði ekki verið látin vita af þeim og síðar þurft að gangast undir legnám. Sævar kvaðst hafa gögn undir höndum sem staðfesti þetta.
Í heild eru málin sem Sævar hefur tilkynnt til Landlæknis orðin átta. Hann gerir ráð fyrir að þeim fjölgi. Þegar séu fjögur málanna komin í ferli hjá embættinu.
Viðtal Nadine Guðrúnar Yaghi fréttamanns við Sævar Þór Jónsson lögmann má sjá í spilaranum hér fyrir neðan. Viðtalið byrjar á mínútu 1:56.