Innlent

Fimm smitaðir í Klettaskóla og 70 börn í sóttkví

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Klettaskóli.
Klettaskóli. Vísir/Vilhelm

Tveir nemendur Klettaskóla, sérskóla í Reykjavík fyrir börn með þroskahömlun, og þrír starfsmenn sem sinna nemendum þar hafa greinst með kórónuveiruna. Sjötíu nemendur eru ýmist í sóttkví eða úrvinnslusóttkví vegna smitanna.

Þetta kemur fram í svari Sigrúnar Björnsdóttur upplýsingafulltrúa skóla- og frístundasviðs við fyrirspurn fréttastofu.

Starfsmaður félagsmiðstöðvarinnar Öskju, sem er fyrir nemendur á mið- og unglingastigi Klettaskóla, greindist með veiruna á föstudag. Þrír starfsmenn skólans, þar af einn í Öskju, eru nú í einangrun með staðfest smit.

Tveir nemendur greindust svo í gær með veiruna. Verið er að rekja mögulegt smit frá þeim en um 70 nemendur Klettaskóla eru nú í sóttkví, líkt og áður segir. Skólanum hefur ekki verið lokað vegna smitanna.

Vitað er af 39 börnum sem nú eru smituð af kórónuveirunni í leik- og grunnskólum borgarinnar. Þá hafa um tuttugu starfsmenn komið smitaðir af veirunni til starfa í skóla- og frístundastarfi í haust en fjórir hafa smitast við störf.


Tengdar fréttir

Selfyssingar bera smitberann á höndum sér

Auður Tinna Hlynsdóttir, starfsmaður á sérdeild Sunnulækjarskóla á Selfossi, segist ekki hafa mætt neinu nema samkennd og umhyggju þrátt fyrir að hafa sett heilt bæjarfélag á hliðina.

Skólastjóri segir sóttvarnaráðstafanir verða að taka mið af aðstæðum

Skipulag í skólum landsins getur ekki verið einsleitt og þarf að vera í takti við þær aðstæður sem eru á hverjum stað. Þetta segir formaður Skólastjórafélagsins um gagnrýni grunnskólakennara þess efnis að unnið sé gegn því að halda skólum opnum. Á annað þúsund börn eru nú í sóttkví.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×