Innlent

Finna fyrir fullum stuðningi ríkis­stjórnarinnar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Frá fundi dagsins.
Frá fundi dagsins. Almannavarnir

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segist ekki finna fyrir öðru en fullri samstöðu frá ríkisstjórninni í garð þríeykisins og þeirra sem vinna að viðbrögðum yfirvalda við kórónuveirufaraldrinum. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir notaði knattspyrnulíkingar til þess að lýsa því hversu mikilvægt það væri að sýna samstöðu.

Fullyrt er í forsíðufrétt Fréttablaðsins í dag að óeining sé innan stjórnarmeirihlutans um sóttvarnaaðgerðir heilbrigðisráðherra. Það sé ekki síst í kjölfar síðustu auglýsinga ráðherrans um og eftir helgina, fyrst þegar hertar samkomutakmarkanir tóku gildi á landinu öllu á mánudag og svo í gær þegar enn hertari reglur tóku gildi á höfuðborgarsvæðinu, þrír ráðherrar Sjálfstæðisflokksins voru sagðir vera í hópi efasemdarmanna.

Víðir og Þórólfur voru spurðir út í þetta á upplýsingafundi almannavarna í dag, hvort að þeir finndu fyrir minnkandi samstöðu gagnvart þeim aðgerðum sem kynntar hafi verið að undanförnu?

„Við upplifum það ekki gagnvart ríkisstjórninni að það sé eitthvað ósætti með það. Við höfum fundað með þeim reglulega og erum með fullan stuðning allra ráðherranna í þessu. Ég held að þetta sé eitthvað orðum aukið. Það er bara hlutverk stjórnmálamanna að spyrja ágengra spurninga og við höfum kallað eftir því að fá gagnrýni og frá rýni á það sem við erum að segja og gera. Þannig á lýðræðislegt samfélag að virka,“ svaraði Víðir sem ítrekaði aftur að full samstaða væri í ríkisstjórninni á bak við þríeykið, það hafi þau fundið skýrt fyrir í samskiptum við ráðherra.

Má gagnrýna landsliðið þegar illa gengur en allir styðja það inni á vellinum

Þórólfur greip boltann á lofti og sagði að það væri ekki síður mikilvægt hjá stjórnvöldum og þingmönnum að sýna samstöðu, þau þyrftu að sýna hana á sama hátt og verið sé að biðla til almennings um að sýna samstöðu gagnvart sóttvarnaraðgerðum.

Sagði hann mikilvægt væri að fylkja sér á bak við þær aðgerðir sem ákveðnar eru, og greip hann til knattspyrnulíkingar til þess að renna stoðum undir mál sitt, líklega vegna þess að íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu spilar afar mikilvægan leik í kvöld.

„Þó að illa gangi þá getum við gagnrýnt landsliðið en þegar komið er út á völlinn að spila þá stöndum við saman og hvetjum þá áfram. Þannig náum við árangri. Við náum engum árangri ef við erum sífellt að nuddast og nagast í því sem verið að gera því hinn eini sannleikur hvernig á að gera þetta, hann er ekki til.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×