Innlent

Guðmundi dæmdar 5,6 milljónir í bætur

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Guðmundi bæturnar í júní.
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Guðmundi bæturnar í júní. Vísir/vilhelm

Íslenska ríkið var í sumar dæmt til að greiða Guðmundi R. Guðlaugssyni 5,6 milljónir króna í skaðabætur vegna tekjutaps sem hann varð fyrir eftir gæsluvarðhaldsvistun árið 2010. Ríkisútvarpið greinir frá.

Árið 2017 voru Guðmundi dæmdar tvær milljónir í miskabætur vegna málsins, annars vegar vegna þvingunarráðstafana sem beindust að honum vegna afbrota sem sonur hans var grunaður um.

Guðmundur og sonur hans voru handteknir árið 2010 grunaðir um aðild að innflutningi á kókaíni til landsins. Guðmundur sat í gæsluvarðhaldi í tíu daga en var sleppt og rannsókn á hendur honum látin niður falla. Sonur hans hlaut að endingu fangelsisdóm fyrir peningaþvætti.

Guðmundur hefur ítrekað lýst því síðustu ár hversu erfið vistunin hafi reynst honum. Þá kveðst hann hafa verið meira og minna óvinnufær síðan en honum var sagt upp störfum nokkrum dögum eftir að hann losnaði úr gæsluvarðhaldinu árið 2010.

Fram kemur í frétt Ríkisútvarpsins að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi fallist á það með Guðmundi að hann hefði verið óvinnufær í tvö ár. Guðmundur fékk fyrir þetta 5,6 milljónir í bætur, að því er segir í frétt Ríkisútvarpsins.

Enn er rekið stærra dómsmál Guðmundar gegn ríkinu. Þar krefur Guðmundur ríkið um rúmar fimmtíu milljónir í skaðabætur fyrir tekjutap til allrar framtíðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×