Skoðun

Að gefnu tilefni

Kristinn Karl Brynjarsson skrifar

Nú ætla ég að hætta mér á þá hálu braut að tjá mig um sóttvarnaraðgerðir og setja þær í samhengi við annað mál sem var á sínum tíma töluvert áhyggjuefni og vandamál.

Sagt er að þessar hertu sóttvarnaraðgerðir skili litlu sem engu þar sem fólk haldi áfram að smitast í stórum stíl, þrátt fyrir hertar aðgerðir stjórnvalda. Aðgerðirnar hamli hinu og þessu og valdi gríðarlegu tekjutapi. Það er að vísu alveg satt að í venjulegu árferði, Covidfríu, þá væri staðan allt önnur og betri.

En þá komum við að því hvort fólk almennt sé að fara að því sem lagt er til eða fyrirskipað í þessum aðgerðum. Ef fólk hunsar þær almennt eða jafnvel bara fáir einstaklingar, þá er auðvitað voðinn vís. Enda reglur nær undantekningalaust settar af gefnu tilefni. Þó auðvitað megi eflaust benda á reglur sem settar eru „af því bara".

Ef við tökum dæmi um stangar reglur eða ströng tilmæli á öðrum vettvangi, þá koma öryggismál sjómanna fljótt upp í hugann. Fyrir ekki svo mörgum árum,þá var staðan þannig að dauðsföll á sjó voru töluverð og alvarleg slys nokkuð algeng. Menn sáu það í hendi sér að svo mætti ekki við búa mikið lengur og farið var í stórátak við að bæta öryggismál sjómanna. Nú er staðan þannig að dauðsföll á sjó þekkjast ekki eða nánast ekki og slysum á sjómönnum hefur fækkað verulega.

Skildi það vera vegna þess eingöngu að öryggiskröfurnar voru auknar eða hefur það ekki töluvert að segja eða er það kannski ekki stærsti þátturinn að sjómenn almennt tömdu sér það verklag sem nýju kröfurnar buðu upp á?

Það þarf í rauninni ekki nema eina kærulausa áhöfn eða jafnvel bara einn kærulausan í áhöfninni til þess að valda stórslysi á sjó.

Að sama skapi þarf ekki marga kærulausa einstaklinga til þess að viðhalda slæmri stöðu Covidmála hér á landi og annars staðar þar sem veiran geisar.

Höfundur er bílstjóri. 




Skoðun

Skoðun

Yfir­lýsing kennara eftir fund með borgar­stjóra

Andrea Sigurjónsdóttir,Eygló Friðriksdóttir,Guðrún Gunnarsdóttir,Jónína Einarsdóttir,Kristín Björnsdóttir,Lilja Margrét Möller,Linda Ósk Sigurðardóttir,Þóranna Rósa Ólafsdóttir skrifar

Skoðun

Vá!

Benedikta Guðrún Svavarsdóttir skrifar

Sjá meira


×