Fótbolti

Gylfi: Danir voru miklu betri

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Gylfi í leiknum í kvöld.
Gylfi í leiknum í kvöld. Vísir/Vilhelm

Gylfi Þór Sigurðsson lék allan leikinn á miðju íslenska landsliðsins í 0-3 tapi gegn Danmörku í kvöld í Þjóðadeild Evrópu og var eðlilega svekktur í leikslok.

„Já þetta er svekkjandi. Fyrstu tvö mörkin eru svekkjandi. Ef við tölum hreina íslensku þá voru þeir miklu betri,“ sagði Gylfi.

Fyrsta mark Dana var umdeilt en Gylfi segir línuvörðinn hafa talið sig vera 100% vissan.

„Við vörðumst ágætlega í fyrri hálfleik. Svekkjandi að fá á sig mark á þessum tímapunkti. Það var erfitt fyrir mig að sjá og örugglega erfiðara fyrir línuvörðinn en hann sagðist vera 100% viss. Danirnir voru mikið betri og ég held að þessi ákvörðun hafi ekki breytt öllu,“ sagði Gylfi.

Síðari hálfleikurinn byrjaði á versta mögulega hátt því Danir tvöfölduðu forystuna eftir nokkrar sekúndur og því fór allt sem rætt var í leikhléinu í vaskinn.

„Við ætluðum áfram að vera þéttir til baka og nýta skyndisóknirnar enda í góðum möguleika á meðan við vorum bara 0-1 undir. Að fá á sig svona klaufalegt mark í byrjun síðari hálfleiks var ekki gott fyrir okkur. En ég sagði við strákana inn í klefa eftir leik að það er betra að þetta gerist núna en í nóvember,“ sagði Gylfi og vísaði þá til leiksins mikilvæga gegn Ungverjum í næsta mánuði.

Gylfi spilaði allar mínúturnar í kvöld líkt og hann gerði gegn Rúmenum síðastliðinn fimmtudag og var spurður að því hvort möguleiki væri á að hann myndi spila gegn Belgum á miðvikudag.

„Við ætlum aðeins að ræða það. Ég er búinn að spila nokkra leiki undanfarið. Ég spjalla við þjálfarana og við sjáum til hvernig ég verð í skrokknum í kvöld,“ segir Gylfi.

Ísland varð fyrir áfalli snemma leiks þegar Alfreð Finnbogason fór meiddur af velli og Aron Einar fór sömu leið í leikhléi. Kári Árnason og Jóhann Berg Guðmundsson voru svo auðvitað ekki með.

„Auðvitað er erfitt að vera án þeirra. Það eru 13-14 leikmenn búnir að spila megnið af leikjunum okkar. Það er gott að nýir leikmenn eru að fá tækifæri. Við eigum eftir að bæta breiddina í hópnum. Það mun nýtast í framtíðinni,“ sagði jákvæður Gylfi að lokum.

Klippa: Viðtal við Gylfa eftir Danaleik

Tengdar fréttir

Hannes segir boltann ekki hafa verið inni

„Nei, ég upplifði ekki að hann væri inni. Ég var mjög ánægður með að ná honum. Hann er hálfur inni. Marklínutækni hefði aldrei dæmt þetta mark,“ sagði Hannes Þór Halldórsson, markvörður Íslands, eftir tapleikinn í kvöld gegn Dönum.

Einkunnir Íslands: Gulli Victor stóð upp úr á döpru kvöldi

Karlalandslið Íslands reið ekki feitum hesti frekar en fyrri daginn frá viðureign sinni við Dani í Þjóðadeildinni í kvöld. Strákarnir okkar töpuðu 3-0 en um sjöunda tap Íslands í röð er að ræða í Þjóðadeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×