Í október stendur Krabbameinsfélagið að venju fyrir átakinu Bleiku slaufunni en að þessu sinni rennur allur ágóði af sölu hennar til krabbameinsrannsókna. Krabbameinsfélagið hefur stundað öflugar rannsóknir frá stofnun félagsins fyrir næstum 70 árum og styrkir að auki rannsóknir annarra í gegnum vísindasjóð.
Vísindasjóður Krabbameinsfélags Íslands var stofnaður í desember 2015 af Krabbameinsfélaginu og aðildarfélögum þess ásamt því að tveir eldri sjóðir, Ingibjargarsjóður og Kristínarsjóður, runnu inn í hinn nýja sjóð. Stofnfé sjóðsins voru 250 milljónir króna. Krabbameinsfélag Íslands er stærsti bakhjarl sjóðsins og veitti 112 milljónum króna til sjóðsins á árunum 2017-2019.
Hlutverk sjóðsins er að styrkja íslenskar rannsóknir á orsökum krabbameina, forvörnum, meðferð og lífsgæðum sjúklinga. Sjóðurinn styrkir sérstaklega krabbameinsrannsóknir sem beinast að börnum. Alls hefur rúmlega 227 milljónum króna verið úthlutað til 30 vísindarannsókna á síðustu fjórum árum.
Með tilkomu sjóðsins hafa tækifæri til krabbameinsrannsókna á Íslandi eflst til muna. Áreiðanleg fjármögnun er forsenda þess að hægt sé að halda öflugu vísindastarfi gangandi. Krabbameinsrannssóknir taka tíma og krefjast sérhæfðrar þekkingar, mannafla, og tækjakosts. Til að gefa dæmi um hvaða þættir rannsókna eru styrktir veitti sjóðurinn í vor 30 milljónum króna í laun doktorsnema, 12 milljónum í laun nýdoktora og lækna í rannsóknaleyfi, 12 milljónum í laun meistaranema, 7 milljónum í efniskostnað og 8 milljónum króna í aðkeypta þjónustu, til dæmis vegna sérhæfðra greininga á sýnum.
Rannsóknirnar sem hafa hlotið styrki úr Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins eru fjölbreyttar og má nefna faraldsfræðirannsóknir, grunnrannsóknir, klínískar rannsóknir og rannsóknir sem brúa bilið milli þessara sviða. Hver og ein leggja rannsóknirnar sitt af mörkum fyrir framfarir í baráttunni gegn krabbameinum. Hvert og eitt okkar getur lagt lóð á vogaskálarnar með kaupum á Bleiku slaufunni. Saman vinnum við að framförum. Styðjum krabbameinsrannsóknir.
Höfundur er formaður stjórnar Vísindasjóðs Krabbameinsfélags Íslands. Nánar má lesa um félagið og starfsemi á þess á heimasíðu Krabbameinsfélagsins.