Reikistjarnan Mars vekur athygli margra þessa dagana en hún er nú sem stærst og björtust á himninum vegna staðsetningar hennar gagnvart jörðinni í sólkerfinu. Hægt er að berja reikistjörnuna augum allar myrkurstundir þessar vikurnar.
Mars er sérstaklega bjartur á himninum þessa dagana vegna þess að jörðin er mitt á milli hans og sólarinnar. Slík staða nefnist gagnstaða við jörðu og í tilfelli Mars á hún sér stað á um það bil tveggja ára fresti. Aðeins um 62 milljónir kílómetrar skilja nú reikistjörnurnar tvær að en fjarlægðin á milli þeirra verður mest um 400 milljónir kílómetra.
Í grein á Vísindavefnum kemur fram að Mars er að finna í austri skömmu eftir sólarlag, í suðri um miðnætti og í vestri á morgunhimninum fyrir sólarupprás.
Fjarlægðin á milli Mars og jarðarinnar hefur farið vaxandi eftir 6. október þegar hnettirnir tveir voru sem næstir hvor öðrum. Halda þeir áfram að fjarlægjast hægt og bítandi. Rauða reikistjarnan verður þó áfram sjáanleg á himninum þar til hún hverfur í sumarbirtuna í maí.