Innlent

Hvetur fleiri heil­brigðis­starfs­menn til að skrá sig í bak­varða­sveitina

Sunna Kristín Hilmarsdóttir og Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifa
Alma Möller, landlæknir, hvetur heilbrigðisstarfsmenn til að skrá sig í bakvarðasveitina.
Alma Möller, landlæknir, hvetur heilbrigðisstarfsmenn til að skrá sig í bakvarðasveitina. Vísir/Vilhelm

Alma Möller, landlæknir, hvatti í dag fleiri heilbrigðisstarfsmenn til að skrá sig í bakvarðasveit heilbrigðisþjónustu vegna kórónuveirufaraldursins. 307 eru nú skráðir í baksvarðasveitina en í vetur voru um þúsund manns skráðir.

„Við myndum alveg vilja sjá fleiri skráningar í bakvarðasveit heilbrigðisþjónustu. Þar eru nú 307 og ég hvet heilbrigðisstarfsmenn til að skrá sig; þá sem eru hættir störfum og treysta sér í vinnu, þá sem starfa við annað og þá sem starfa í einkarekinni þjónustu,“ sagði Alma á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í dag.

Hægt væri að velja um að sinna ýmsum störfum, til dæmis sjúklingum með Covid-19, símsvörun, fjarþjónustu og smitrakningu. Þá minnti hún einnig á bakvarðasveit velferðarþjónustu.

Hefur trú á að það verði hægt að manna gjörgæsluna

Aðspurð á fundinum hversu marga þyrfti til í bakvarðasveitina að hennar mati, til dæmis svo hægt væri að tryggja þjónustu á gjörgæsludeild Landspítalans, sagði Alma að ekki væri búið að reikna út hversu marga þyrfti til viðbótar í sveitina.

„Við vorum auðvitað með um þúsund manns í vetur og það voru kannski um fimmtán prósent þeirra sem voru kallaðir til. Þannig að þetta er nú ekkert mjög stór hópur en af því að þú nefnir gjörgæslurnar þá er hægt að færa til fólk, eins og þeir sem vinna á skurðstofum, svæfinga- og gjörgæslulæknar og svæfingahjúkrunarfræðingar, þeir geta farið og unnið á gjörgæslu og svo eigum við líka marga sem eru í einkageiranum sem geta líka farið þangað. Þannig að ég hef trú á að það verði hægt að manna gjörgæslurnar,“ sagði Alma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×