Evrópusambandið hefur ákveðið að beita sex meðlimir ríkisstjórnar Vladímírs Pútín, forseta Rússlands, viðskiptaþvingunum vegna eitrunar rússneska stjórnarandstæðingsins Alexei Navalní. Talið er að mennirnir hafi komið að því að eitrað hafi verið fyrir Navalní með taugaeitrinu Novichok.
Eignir þeirra innan ESB verða frystar og þeim verður meinað að ferðast til aðildarríkja sambandsins.
Meðal þeirra sem um ræðir er Alexander Bortnikov, yfirmaður Leyniþjónustu Rússlands (FSB), og tveir aðstoðarvarnamálaráðherrar, þeir Alexei Krivoruchko og Pacel Popov. Þar að auki hefur Sergei Kiriyenko, sem er háttsettur embættismaður í ríkisstjórninni verið beittur viðskiptaþvingunum.
Einnig hefur þvingunum verið beitt gegn opinberri rannsóknarstofu þar sem talið er að eiturefnið hafi verið þróað.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sagði fyrr í vikunni að Rússar myndu svara öllum þvingunum í sömu mynt.
Navalní veiktist hastarlega í flugvél í Rússlandi 20. ágúst. Hann féll í dá og grunaði aðstandendur hans strax að eitrað hefði verið fyrir honum. Nokkrum dögum síðar var Navalní fluttur á sjúkrahús í Berlín. Sérfræðingar í Þýskalandi segja að honum hafi verið byrlað novichok, taugaeitur sem var þróað í Sovétríkjunum.
Vísindamenn í Svíþjóð og Frakklandi komust að sömu niðurstöðu sem vísindamenn Efnavopnastofnunarinnar hafa einnig staðfest.
Navalní hefur sakað Pútín um að standa að baki því að eitrað var fyrir honum. Því neita ráðamenn í Moskvu alfarið.