Erlent

Saka mexí­kóska ráð­herrann um mútu­þægni og stór­fellt fíkni­efna­smygl

Kjartan Kjartansson skrifar
Salvador Cienfuegos Zepeda (t.v.) með Enrique Peña Nieto, þáverandi forseta Mexíkó, árið 2016. Cienfuegos er sagður hafa gætt þess að herinn beitti sér ekki gegn fíkniefnagengi sem greiddi honum mútur en beindi þess í stað spjótum sínum að keppinautum þess.
Salvador Cienfuegos Zepeda (t.v.) með Enrique Peña Nieto, þáverandi forseta Mexíkó, árið 2016. Cienfuegos er sagður hafa gætt þess að herinn beitti sér ekki gegn fíkniefnagengi sem greiddi honum mútur en beindi þess í stað spjótum sínum að keppinautum þess. AP/Rebecca Blackwell

Bandarískir saksóknarar saka fyrrverandi varnarmálaráðherra Mexíkó um að hafa aðstoðað við smygl á þúsundum kílóa af fíkniefnum til Bandaríkjanna gegn mútum. Hann hafi tryggt að herinn beitti sér ekki gegn fíkniefnahring sem greiddi honum á laun og herjaði frekar á keppinauta hans.

Salvador Cienfuegos Zepeda, fyrrverandi varnarmálaráðherra og hershöfðingi, var handtekinn í Los Angeles þegar hann kom til Bandaríkjanna í gær. Hann er sagður hafa unnið með H-2-fíkniefnahringnum á meðan hann var ráðherra í ríkisstjórn Enrique Peña Nieto forseta frá 2012 til 2018.

Í skjölum sem voru lögð fyrir dómara í Kaliforníu í dag kemur fram að þúsundir símaskilaboða sem voru hleruð sýni að Cienfuegos hafi haldið hlífiskildi yfir glæpagenginu og kynnt leiðtoga þess fyrir öðrum spilltum stjórnmálamönnum, að sögn AP-fréttastofunnar.

Cienfuegos hafi einnig varað leiðtoga gengisins við rannsókn bandarískra löggæslustofnana á umsvifum þess sem byggðist meðal annars á uppljóstrurum og vitnum. Það hafi orðið til þess að félagar í genginu hafi verið myrtir vegna þess að leiðtogar þess hafi trúað því ranglega að þeir ynnu með bandarísku lögreglunni.

Ákærudómstóll í New York gaf út ákæru á hendur Cienfuegos fyrir aðild að samsæri um dreifingu á heróíni, kókaíni, metamfetamíni og maríjúana. Hann gætti átt yfir höfði sér að minnsta kosti tíu ára fangelsisvist verði hann fundinn sekur. Cienfuegos er 72 ára gamall. Saksóknarar krefjast þess að honum verði neitað um lausn gegn tryggingu þar sem mikil hætta sér á að hann flýi landið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×