Umdeilt útgöngubann tók gildi í gærkvöldi í París svo og átta öðru borgum Frakklands. Götur borganna voru nær mannlausar en lögregla fylgdi því eftir að bannið væri virt.
Emmanuel Macron, forseti, segir bannið verða í gildi í að minnsta kosti fjórar vikur. Íbúum í París, Marseille, Lyon, Lille, Aix-en-Provence, Rouen, Toulouse, Grenoble og Montpellier verður bannað að yfirgefa heimili sín á milli klukkan 21:00 og 6:00 að staðartíma.
Tilgangurinn með útgöngubanninu er að reyna að sporna geng útbreiðslu kórónuveirunnar en faraldurinn er í sókn þar líkt og víða annars staðar í Evrópu.
Útgöngubannið er nokkuð umdeilt meðal veitingahúseigenda. Þeir eru margir enn að glíma við rekstrarvanda eftir allar þær lokanir sem fylgdu fyrstu bylgju faraldursins.
Búist er við því að Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, tilkynni um hertar aðgerðir þar í landi í dag. Metfjöldi greind með veiruna þar í landi gær.
Ríflega ein komma ein milljón manna hefur nú látist af völdum COVID-19 í heiminum frá því í árslok 2019. Sóttvarnarstofnun Evrópu greinir frá þessu og að nærri fjörtíu milljónir manna hafi greinst með kórónuveiruna.