Viðskipti

Spyrja hvort móður­fé­lag Norður­áls reyni að þvinga niður raf­orku­verð

Kjartan Kjartansson skrifar
Norðurál rekur álver á Grundartanga.
Norðurál rekur álver á Grundartanga. Vísir

Landsvirkjun hafnar ásökunum Norðuráls um að fyrirtækið hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína á skammtímamarkaði með raforku. Í yfirlýsingu Landsvirkjunar er krafa Norðuráls sett í samhengi við að móðurfélag þess virðist reyna að þvinga niður raforkuverð á starfssvæðum sínum.

Norðurál sendi Samkeppniseftirlitinu erindi þar sem fyrirtækið óskaði íhlutunar vegna þess sem telur misnotkun Landsvirkjunar á markaðsráðandi stöðu þegar það falaðist eftir að kaupa raforku á skammtímamarkaði í sumar. Landsvirkjun hafi sett upp yfirverð á orkunni.

Í yfirlýsingu sem Landsvirkjun sendi frá sér síðdegis er þeim ásökunum vísað á bug og fullyrt að fyrirtækið hafi farið að samkeppnislögum, þar á meðal ákvæðum sem banna sölu á orku undir kostnaðarverði sem hafi neikvæð áhrif á samkeppni.

Gerir Landsvirkjun einnig athugasemdir við rökstuðning Norðuráls um að fyrirtækið hafi ekki haft nægjanlega orku í gegnum langtímasamninga til þess að halda uppi fullri framleiðslu í álverinu á Grundartanga í allnokkur ár. Landsvirkjun bendir á að hún sjái Norðuráli aðeins fyrir um 35% af orkuþörf álversins. Verð Landsvirkjunar á skammtímaorku hafi verið við kostnaðarverð undanfarin misseri og því hafi ekki verið borð fyrir báru að selja það lægra verði.

„Landsvirkjun ber að sjálfsögðu ekki ábyrgð á skerðingum annarra raforkuframleiðanda og er ekki eini raforkubirginn sem álver og aðrir viðskiptavinir geta leitað til vegna kaupa á skammtímaorku,“ segir í yfirlýsingunni.

Orkufyrirtækið setur erindi Norðuráls í samhengi við fréttir af því að Century Aluminium, móðurfélag þess, ætli að loka álveri sínu í Suður-Karólínu í Bandaríkjunum í desember fáið það ekki lægra raforkuverð.

„Vekur það óneitanlega spurningu um hvort erindið sé liður í áætlun móðurfélagsins um að þvinga niður raforkuverð á starfssvæðum sínum,“ segir Landsvirkjun í yfirlýsingunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×