Fótbolti

Ungverska ungstirnið sem Íslendingar mæta með draumamark í gær

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dominik Szoboszlai fagnar glæsilegu marki sínu fyrir Red Bull Salzburg gegn Lokomotiv Moskvu í Meistaradeild Evrópu í gær.
Dominik Szoboszlai fagnar glæsilegu marki sínu fyrir Red Bull Salzburg gegn Lokomotiv Moskvu í Meistaradeild Evrópu í gær. getty/Michael Molzar

Dominik Szoboszlai skoraði stórglæsilegt mark þegar Red Bull Salzburg gerði 2-2 jafntefli við Lokomotiv Moskvu í A-riðli Meistaradeildar Evrópu í gær.

Hinn nítján ára Szoboszlai er ungverskur landsliðsmaður og mætir Íslendingum í umspili um sæti á EM í Búdapest 12. nóvember.

Szoboszlai er sparkviss með afbrigðum eins og hann sýndi í leiknum í gær. Á lokamínútu fyrri hálfleiks fékk hann boltann á vítateigshorninu vinstra megin eftir hornspyrnu. Szoboszlai beið ekki boðanna, lét vaða og boltinn fór í slána og inn. Hann jafnaði þarna metin í 1-1. Mörkin úr leiknum má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Salzburg 2-2 Lokomotiv Moskva

Szoboszlai er mikill aukaspyrnusérfræðingur eins og hann sýndi í leik Ungverjalands og Tyrklands í Þjóðadeildinni í síðasta mánuði. Hann skoraði þá með mögnuðu skoti í stöng og inn af löngu færi.

Szoboszlai fór til Austurríkis 2016 þegar hann gekk í raðir Liefering. Eftir tvö ár þar fór hann til Salzburg þar sem hann hefur þrisvar sinnum orðið austurrískur meistari.

Á síðasta tímabili var Szoboszlai valinn besti leikmaður austurrísku úrvalsdeildarinnar. Hann skoraði þá níu mörk og lagði upp fjórtán í 27 deildarleikjum.

Szoboszlai hefur leikið tíu leiki fyrir ungverska A-landsliðið og skorað tvö mörk, bæði með skotum beint úr aukaspyrnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×