Togbáturinn Drangur ÁR 307 sökk í höfninni á Stöðvarfirði í morgun. Frá þessu er greint á vef Austurfréttar. Þar kemur fram að nú sé unnið að því að koma upp girðingum í kring um bátinn, til þess að varna því að hann mengi út frá sér.
Austurfrétt greinir þá frá því að löndun úr öðrum bát í höfninni hafi staðið yfir þegar tekið var eftir því að Drangur hafi verið farinn að halla heldur mikið. Afturtog hafi þá slitnað og báturinn farið hratt niður á botn. Engin slys urðu á fólki.
Björgunarsveitir frá Fáskrúðsfirði og Breiðdalsvík voru kallaðar út, ásamt slökkviliði, til þess að setja upp girðingar til þess að koma í veg fyrir að mengun berist frá bátnum. Þá er von á að varðskipið Þór, sem er á Fáskrúðsfirði, haldi til Stöðvarfjarðar vegna bátsins.
Uppfært klukkan 12:20: Á ellefta tímanum kom varðskipið Þór til Stöðvarfjarðar, samkvæmt Ásgeiri Erlendssyni, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar. Kafarar gæslunnar kanna ástand skipsins núna.
Hluti áhafnar skipsins fór á undan skipinu á léttbát til Stöðvarfjarðar og aðstoðaði við að koma upp mengunargirðingu við skipið í morgun. Gert er ráð fyrir að Þór verði til taks á staðnum í dag.