Alls hafa 49 skjólstæðingar Landakots, Reykjalundar og Sólvalla á Eyrarbakka greinst með Covid-19 í kjölfar hópsýkingar á Landakoti. Þá hafa 28 starfsmenn greinst. Því hafa 77 smit verið rakin til hópsýkingarinnar á Landakoti. Talið er líklegt að starfsfólk hafi borið kórónuveiruna inn á Landakot í kring um 12. október.
Þetta kom fram í máli Más Kristjánssonar, yfirlæknis smitsjúkdóma á Landspítalanum, á blaðamannafundi vegna þess að Landspítalinn hefur verið færður á neyðarstig í fyrsta sinn frá upphafi faraldursins.
Alls eru 52 sjúklingar með Covid-19 á spítalanum, þar af 20 á Landakoti. Þá eru 25 aðrir sjúklingar Landspítalans í sóttkví og 250 starfsmenn.
„Þetta setur þungar kvaðir á okkar viðkvæma kerfi. Við erum ekki bjargarlaus, við höfum úr mörgum björgum að spila ennþá,“ sagði Már og bætti við að nóg væri til af hlífðarbúnaði og lyfjum á spítalanum.
Hann segir skoðun Landspítalans hafa leitt í ljós að smit hafi líklega borist inn á Landakot um miðjan október.
„Í aðdraganda þess að smitið er greint hefur skoðun okkar leitt í ljós að í kring um 12. október hafi starfsmenn borið smit inn á Landakot, og það sé í rauninni orsök þessa,“ segir Már.
Það þýði að einstaklingar sem útskrifuðust af Landakoti frá 12. október geti hafa borið smit á aðrar heilbrigðisstofnanir.