Erlent

Fauci telur að bólu­efni verði til­búið fyrir árs­lok

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Anthony Fauci, helsti sóttvarnasérfræðingur Bandaríkjastjórnar, telur að bóluefni gegn kórónuveirunni geti verið tilbúið fyrir lok árs.
Anthony Fauci, helsti sóttvarnasérfræðingur Bandaríkjastjórnar, telur að bóluefni gegn kórónuveirunni geti verið tilbúið fyrir lok árs. Getty/Alex Edelman

Anthony Fauci, helsti sóttvarnasérfræðingur Bandaríkjastjórnar, telur að það verði komið á hreint fyrir árslok hvort bóluefni sem nú eru í þróun verði nothæf og virki gegn Covid-19 veirunni.

Hann segir spurninguna þó vera, ef nothæft bóluefni verður tilbúið, hverjum eigi að gefa það fyrst og hvernig eigi að gefa það. Það sé ljóst að ekki verði hægt að bólusetja alla í einu.

„Í desember verður sannarlega ekki til nóg af bóluefni til að bólusetja alla. Við munum þurfa að bíða í nokkra mánuði af næsta ári. Það sem hefur hins vegar verið gert er að það hefur verið forgangsraðað, þannig að einstaklingar líkt og heilbrigðisstarfsmenn verða líklegast þeir sem fá fyrstir bóluefnið,“ sagði Fauci í viðtali hjá breska ríkisútvarpinu.

Næstir til að verða bólusettir verði svo líklega þeir sem eru í áhættuhópum. Hann telur að bólusetning þessara fyrstu hópa geti hafist í lok árs eða á fyrstu mánuðum 2021.

„En þegar við tölum um að bólusetja nægilega stóran hóp fólks til þess að það hafi áhrif á þróun faraldursins tekst það að öllum líkindum ekki fyrr en seint á næsta ári,“ sagði Fauci.

Átta bóluefni gegn Covid-19 eru nú á lokastigi prófana á heimsvísu. Sérfræðingar hafa sagt að fýsilegast væri ef bóluefnið myndi mótefni gegn kórónuveirunni hjá um 70 prósentum bólusettra. Aldrei megi minna en 50% bólusettra mynda mótefni við veirunni.


Tengdar fréttir

Næðum ekki hjarðónæmi án alvarlegra afleiðinga

Hjarðónæmi við kórónuveirunni næst ekki án alvarlegra afleiðinga og enginn vísindalegur rökstuðningur hefur verið settur fram fyrir hugmyndum um að aflétta sóttvarnaaðgerðum og treysta á náttúrulegt hjarðónæmi, að sögn íslenskra sérfræðinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×